Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag harkalega skrif Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrím J. Sigfússon í Fréttablaðinu í gær. Í blaðinu birtist hálfsíðugrein um stöðu efnahagsmála eftir hrun og að þrjú ár hafi verið liðin frá því ríkisstjórn Samfylkingar og VG tók til starfa.

Gagnrýni Gunnars Braga sneri öðru fremur að því að í greininni hafi ekkert verið fjallað um slæma stöðu þeirra 60 þúsund heimila í landinu sem glími við neikvæða eiginfjárstöðu. Þá sagði hann það misráðið hjá ríkisstjórninni á sínum tíma að setja bankana í hendur kröfuhafa sem taki til sín hagnaðinn. Þegar Jóhanna svaraði því til að ekki hafi verið pláss í blaðinu til að fjalla um heimilin í landinu brást Gunnar Bragi illa við og benti á að plássið hefði verið nóg hefði ríkisstjórnin tekið yfir auglýsingu frá Landsbankanum sem tók hinn helminginn af blaðsíðunni sem greinin var á.

Jóhanna svaraði Gunnari Braga því til að þvert á fullyrðingar hans hefði mikið áunnist í því að bæta stöðu heimilanna miðað við þær tölur sem hann styðjist við. Þær séu frá árinu 2010 þegar staðan var öllu verri, svo sem hafi skuldir fyrirtækja lækkað mikið. Þær hafi verið á við þrefalda landsframleiðslu árið 2010 en eru í dag á við tvöfalda landsframleiðslu. Að sama skapi hafi þeim heimilum fækkað sem glími við neikvæða eiginfjárstöðu.

„Hann ætti að bera saman stöðuna í dag en ekki árið 2010,“ sagði forsætisráðherra.