Ríkisstjórnin er með allar upplýsingar um þann afslátt sem nýju bankarnir fengi við kaup á eignum gömlu bankanna og það svigrúm sem hver banki hefur til leiðréttingar á lánum. Þetta segir Guðlaugur Þ. Þór, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur sagði á þingfundi á Alþingi í dag að hann hafi óskað eftir því að öll skjöl varðandi eignatilfærsluna verði gerð opinber.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)

Helgi Hjörvar, formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, tók undir með Guðlaugi. Hann benti á að fulltrúar bankanna hafi farið yfir málið á fundi nefndarinnar í gær. Fram kom í Fréttablaðinu í dag að svigrúmið væri að mestu uppurið.  Helgi sagði deilt um þetta og þar sem vantraust væri mikið á fjármálafyrirtækin nú um stundir væri mikilvægt að kalla til óháðan aðila til að fara yfir alla útreikninga.

Helgi áréttaði að þótt fulltrúar bankanna hafi sagt svigrúmið fullnýtt sem þeir hafi til að leiðrétta lán þá þýði það ekki að þeir séu hættir því. „Þeim verkefnum verður auðvitað haldið áfram. Bönkunum verður ekki lokað þótt þeir telji að svigrúmið sé fullnýtt. Auðvitað á fólk að halda áfram að vinna með bönkunum,“ sagði hann.