Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ávítti Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir að bregða fyrir sig enskulettum á Alþingi þegar hann svaraði fyrirspurnum Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar. Einar minnti þingheim á lög Alþingis að þar skyldi nota íslenska tungu.

Sigmundur svaraði því hins vegar til að hann fagnaði því að forsetinn hafi staðist árveknisprófið en hafi talið nauðsynlegt að bregða fyrir sig enskri tungu í tilsvörum sínum.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, var sömuleiðis minntur á reglur og lög á Alþingi þegar hann talaði um bjútíið við fjárfestingarætlun ríkisstjórnarinnar.

Guðmundur svaraði forseta Alþingis á eftirfarandi hátt: „Ég aðhylilst frjálslynda málverndarstefnu.“