„Það að starfa í háskólaumhverfi þýðir ekki að menn séu heilagir og að ekki megi rökræða við þá,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag en þar deildi hann í óundirbúnum fyrirspurnartíma við Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar, um viðhorf forsætisráðherra til stjórnmálaumræðunnar.

Guðmundur sagði umræðuna hafa verið vonda lengi, reyndar í áratugi. Hún hafi reyndar verið sérstaklega slæm í kringum og eftir hrunið.

„Mér finnst það vera eitt mikilvægasta mál stjórnmálanna að bæta umræðuna, láta af dylgjum og virða það að fólk hafi ólíkar skoðanir. Við eigum að geta rætt saman,“ sagði Guðmundur og vísaði til ræðu Sigmundar Davíðs á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í síðustu viku en þar gagnrýndi hann Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og fleiri. Sigmundur var sjálfur tekinn í bakaríið fyrir gagnrýni sína. Þessu til viðbótar hefur Sigmundur Davíð gagnrýnt rannsóknir og greinaskrif Þórólfs Matthíassonar, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, um landbúnaðarmál. Sigmundur hefur sagt Þórólf í krossferð.

„Ég tel hæstvirtan forsætisráðherra ekki hafa axlað skyldu sína og finnst ekki rétt að prófessorar sem hafi stundað rannsóknir í landbúnaðarmálum séu í krossferð, að fólk í Viðskiptaráði vilji selja landið, að skammast  eigi út í greiningu og frá Seðlabankanum,“ sagði Guðmundur.

Hvernig lítur rökræðan út?

Þá spurði Guðmundur, sem er menntaður hér heima og ytra í heimspeki, Sigmund að því hvernig góð rökræða líti út að hans mati. Þetta var reyndar ekki fyrsta skiptið í morgun sem Sigmundur Davíð ræddi um skoðanir sínar í dag en það gerði hann í morgunþætti Bylgjunnar í morgun.

Sigmundur svaraði:

„Ef það á að vera gott fordæmi að stuðla að umræðu þá hljóta menn að vilja ræða um afstöðu manna sama hvort þeir vinna hér eða í háskólanum. Ef menn vilja stunda rökræðu í samfélaginu þá mega ekki vera neinar heilagar kýr í því. Er ekki eðlilegt að skoða hvernig lífeyrissjóðirnir eiga að skapa störf í landinu og rökræða stefnu seðlabankans sem hefur áhrif á efnayhag í landinu? Það er æskilegt að menn hafi ólíkar skoðanir og rökræði,“ sagði Sigmundur og benti á að vilji menn raunveruleg skoðanaskipti og umræður þá verði menn að sætta sig við að skoðanabræður séu gagnrýndir.