*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 6. maí 2013 08:47

Þingmenn eiga rétt á biðlaunum

Ráðherrar, þingmenn og aðstoðarmenn ráðherra sem nú láta af störfum eiga rétt á biðlaunum sem nema rúmri 121 milljón króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Biðlaunaréttur þingmanna, ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra nemur 121.190.484 krónum. Óvíst er hvort allir nýti sér rétt sinn og taki þeir að sér önnur störf dragast launin frá biðlaunaréttinum. Greint er frá þessu í fréttablaðinu.

Alls luku 27 þingmenn störfum á Alþingi eftir nýafstaðnar kosningar. Sumir þeirra náðu ekki kjöri en aðrir höfðu ákveðið að gefa ekki kost á sér. Þessir þingmenn eiga allir rétt á biðlaunum. Þeir sem hafa setið lengur en eitt kjörtímabil eiga rétt á sex mánaða biðlaunum. Þeir sem hins vegar hafa aðeins setið eitt kjörtímabil, eða skemur, eiga rétt á þriggja mánaða biðlaunum. Þá skiptir engu hvort þeir sátu allt kjörtímabilið eða aðeins nokkra mánuði. Þingfararkaupið er 630.025 krónur á mánuði.

Laun ráðherra samanstanda af þingfararkaupi og ráðherraálagi. Forsætisráðherra er með 1.231.092 krónur á mánuði, en aðrir ráðherrar 1.112.606 krónur.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á rétt á sex mánaða biðlaunum, eða tæplega 7,4 milljónum króna. Hún hættir bæði sem ráðherra og þingmaður og er því talin báðum megin í þessu uppgjöri, þar sem laun hennar eru tvískipt. Hún á hins vegar rétt á því að fara á eftirlaun og því er óvíst hvort hún þiggur biðlaun.

Stikkorð: Alþingi Alþingismenn