*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Erlent 31. janúar 2018 15:37

Þingmenn fá að sjá umdeilda skýrslu

Skýrsla sem lekið var úr bresku stjórnsýslunni áætlar að þjóðarframleiðsla verði lægri vegna Brexit.

Ritstjórn
Theresa May forsætisráðherra Breta.
epa

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur lofað að leyfa þingmönnum að sjá skýrslu um efnahagslegar afleiðingar af Brexit áður en þeir kjósa um endanlegan samning Bretlands við Evrópusambandið eftir Brexit að því er The Guardian greinir frá. Skýrslan var aðeins ætluð ráðherrum í ríkisstjórn May en henni var lekið til BuzzFeed. 

Skýrslan hefur ollið töluverðu fjaðrafoki í breska þinginu en í henni segir að á fimmtán ára tímabili muni hagvöxtur verða minni í Bretlandi gangi það út úr Evrópusambandinu en hún er vera á ábyrgð æðstu embættismanna bresku stjórnsýslunnar.

Í skýrslunni er að finna þrjár sviðsmyndir en sú fyrsta gerir ráð fyrir að enginn samningur náist við ESB og þá er áætlað þjóðarframleiðsla verði 8% lægri heldur en ef Bretland yrði áfram hluti af sambandinu. Í annarri sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að fríverslunarsamningur náist við ESB en þá er áætlað að þjóðarframleiðsla verði 5% minni og í þeirri þriðju er gert ráð fyrir að Bretar verði áfram hluti af sameiginlega markaðnum en í þeirri sviðsmynd er áætlað að þjóðarframleiðslan verði 2% minni.

Helstu talsmenn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa sagt að embættismenn hafi aldrei unnið efnahagsspá sem stæðist og gert lítið úr niðurstöðum skýrslunnar.