Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis fékk í fyrra umboð til að undirbúa siðareglur fyrir alþingismenn. Við gerð þeirra var horft til siðareglna Evrópuráðsþingsins. Hann hefur nú látið þýða þær og staðfæra.

Einar kom inn á siðareglurnar í ávarpi sínu við setningu Alþingis í dag.

Þar sagði hann nú verið að kanna hvort samkomulag geti náðst meðal þingmanna um að láta siðareglur Evrópuráðsþingsins gilda sem siðareglur þingmanna á Alþingi, allavega fyrst um sinn.

Hann sagði:

„Minni ég á að nær öll þjóðþing Evrópu eiga aðild að þingi Evrópuráðsins. Þessar siðareglur hafa nýlega verið sendar þingflokkunum til umfjöllunar og vænti ég þess að þeir taki sem fyrst afstöðu til þeirra.“