Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna, vék hart að Árna Pál Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefnd fyrir skömmu þegar rætt var um skuldavanda heimila.

Nú fer fram opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd en efnahags- og viðskiptaráðherra er gestur fundarins.

Þráinn spurði Árna Pál hvort og hvernig hann hygðist beita sér fyrir því að lækka skuldir heimila gagnvart bönkunum. Bankarnir hefðu innheimt hverja einustu krónu lána þrátt fyrir að hafa fengið lánin með afslætti frá gömlu bönkunum.

Árni Páll sagði að bankarnir hefðu mikið svigrúm til afskrifta og að hann hefði hvatt þá til að nýta heimildir sínar til afskrifta.

Aðrir þingmenn í nefndinni, Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurðu Árna Pál einnig um svokallaðar leiðréttingar skulda heimilanna. Árni Páll svaraði því til að ríkisvaldið hefði gengið nokkuð langt í aðgerðum þessu tengdu og minnti á að bankar hefðu stjórnarskrárvarinn rétt til að verja eignir sínar. Hann minnti á að Hæstiréttur hefði einu sinni gert Alþingi afturreka með löggjöf vegna leiðréttinga skulda, það væri því ekki hlaupið að því að setja lög um leiðréttingu skulda.

Margrét spurði Árna Pál hvort til greina kæmi að leggja 95% skatt á arðgreiðslur banka. Árni Páll svaraði því til að það kæmi ekki til greina. Árni Páll lagði áherslu á að verið væri að búa til hvatakerfi fyrir bankana til að afskrifa skuldir. Það myndi að lokum verða ódýrara fyrir bankana að hraða úrlausnum varðandi skuldavanda, frekar en að tefja málin.

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis með Árna Pál Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, þann 05.10.11. (Skjámynd af vef Alþingis)
Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis með Árna Pál Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, þann 05.10.11. (Skjámynd af vef Alþingis)
© vb.is (vb.is)

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis með Árna Pál Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, þann 05.10.11. (Skjámynd af vef Alþingis)