Brynjar Níelsson og Guðni Ágústsson ættu að vera öllum landsmönnum kunnugir, en þeir eru til viðtals í Áramótum Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sem kom út á dögunum. Brynjar rekur þar meðal annars sögu þess hvernig vinstri hreyfingin klofnaði hér áður fyrr í róttæka sósíalista og krata eftir afstöðu sinni til þess hvort sósíalisma ætti að koma á með byltingu eða lýðræðislegum hætti.

„Það eru kratar á Norðurlöndunum sem átta sig á mikilvægi atvinnulífsins og nýsköpunar í atvinnulífinu og vita það að ríkið er ekki það sem á að reka atvinnulífið, þar skilur á milli og þess vegna verða þessir sósíalísku flokkar í Skandinavíu bara jaðarflokkar en þeir hafa alltaf verið miklu stærri hér. Stóri krataflokkurinn hér er auðvitað bara Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi," segir Brynjar.

„Var," skýtur Guðni inn í.

„Hann er ekki lengur stór, meinar þú?" spyr Brynjar og Guðni svarar því til að flokkurinn hafi svolítið misst fjaðrir sínar, líkt og aðrir flokkar. Brynjar veltir því upp hvort það sé vegna þess að hann tali minna fyrir stefnunni en áður en Guðni gefur lítið fyrir það.

„Nei, þetta er öðruvísi samfélag og flokkar verða til um sérstök málefni. Flokkur fólksins um öryrkja og aldraða, og svo þessi klofningur okkar með Miðflokknum og ykkar með Viðreisn. Samfylkingin hefur brugðist hlutverki sínu. Það má segja að Vinstri grænir hafi á tímabili verið líklegir til að taka við því hlutverki af þeim en ég veit ekki hvernig það fer hjá þeim. En eitt er alveg ljóst, að þrátt fyrir þetta allt saman, þá verðum við að viðurkenna, eins og drengurinn Ragnar Hjálmarsson komst að niðurstöðu rannsóknar sinnar, að þrátt fyrir allt þá á Ísland góða stjórnmálamenn sem hafa unnið stór afrek," segir hann.

Brynjar samþykkir það en segir okkur eðlislægt að tala þá niður, þjóðin sé mjög upptekin af því að tala allt niður. Guðni segir stjórnmálamennina tala sig mest niður sjálfir og Brynjar segir það einkum áberandi nú í seinni tíð.

„Þeir bera ekki lengur virðingu fyrir sér," segir Guðni. „Ekki fyrir Alþingi heldur," segir Brynjar

„Þú getur ímyndað þér, íslenskir hestamenn ríða sparibúnir til keppninnar, dómararnir fara í hempu og menn bera virðingu fyrir sér en þingmennirnir eru bara í fjósafötum, svona upp til hópa. Nú er ég ekki að biðja um að stjórnmálamenn gangi um eins og þeir gerðu í gamla daga með hatt og í svörtum fötum, það þætti kannski hrokafullt, en það er gríðarlega mikilvægt að þeir séu myndarlegir, bæði karlar og konur, hvar sem þeir koma," segir Guðni.

„Sumir gera mjög lítið úr þessu og finnst þetta mjög gamaldags en þetta er eitt af því sem skiptir alltaf máli í mínum huga, að sýna öðru fólki og stofnuninni virðingu, án þess að ég sé að tala um eitthvað prjál," segir Brynjar.

„Hann sagði mér Pálmi Jónsson á Akri, góður sjálfstæðismaður og mikill vinur föður míns, að hann heyrði eitt sinn föður minn lenda í harðri rimmu við Garðar Sigurðsson, sem var hér skemmtilegur Alþýðubandalagsmaður og mjög skemmtilegur karakter. Ágúst faðir minn hafði verið af gamla skólanum og þeir rifust, og sagði pabbi við Garðar:

„Þú hefur orðið þér til skammar hér upp á hvern einasta dag á Alþingi Íslendinga, Garðar. Ekki bara fyrir málflutning þinn, heldur klæðaburð."

Garðar varð best klæddi alþingismaður Íslendinga eftir það, alltaf alveg eins og úr tískublaði, eins og Kennedy-arnir," segir Guðni.

Nánar er rætt við þá Brynjar og Guðna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .