Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tókust á um það á Alþingi í umræðu um störf þingsins hvort og hvers vegna þjóðin eigi að fá að kjósa um hugmyndir stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.

Hver er hræddur við þjóðina?

Helgi Hjörvar sagði það einsdæmi í þingsögunni að Framsóknarflokkurinn hafi lagst í málþóf gegn eigin kosningaloforðum. Hann sagði þingmenn flokksins leggjast í langlokuræður kvöld eftir kvöld til að koma í veg fyrir að þjóðin fái að segja sitt.

„Það er kunnugt að stjórnarflokkar þurfa að slá af kosningaloforðum sínum. En einsdæmi er að stjórnarandstöðuflokkar geri það,“ sagði Helgi og benti á að Framsóknarflokkurinn væri hræddur við það eins og pestina að þjóðin fái að segja sitt.

Þá spurði hann hverjir aðrir séu hræddir við álit þjóðarinnar eins og pestina.

„Þú!“ heyrðist úr þingsal.

Frasakóngurinn Sigmundur

Sigmundur Davíð brást reiður við gagnrýni Helga og sagði Samfylkinguna gera engan greinarmun á því að gera hlutina vel eða almennilega. Allt gangi út á frasana. Samfylkingin þykist vera fulltrúi lýðræðisins og nefndi Icesave-málið og aðild Ísland að Evrópusambandinu máli sínu til staðfestingar.

„En það má setja gjörsamlega óskiljanlegar spurningar um stjórnarskránna fyrir þjóðina,“ sagði hann og bætti við:

„Ríkisstjórnin hefur ekkert gert fyrir ísland í þrjú ár og valdið þjóðinni meira tjóni en efnahagshrunið!“

Þegar Sigmundur Davíð gekk úr pontu heyrði úr þingsal: „Þvílíkur frasakóngur!“