Samþykkt var á Alþingi í dag eftir miklar umræður að senda verndar- og orkunýtingaráætlun (flokkun virkunarkosta og gerð orkunýtingaráætlunar) til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áður lagt til að málið yrði lagt fyrir atvinnuveganefnd. Helst stóð það í þingmönnum hvert málið ætti að fara.

Þingmenn tókust mjög á um málið áður en samþykkt var með 28 atkvæðum gegn 17 að senda það til umhverfis- og samgöngunefndar.

Hér má sjá nokkur ummæli sem féllu á Alþingi í tengslum við málið:

„Þetta eru allt saman greinar sem snúa að umhverfismálum en koma atvinnumálum ekkert við,“ - Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

„Þetta er hugsunarvilla hjá stjórnarliðum. Það stendur í þingsköpum Alþingis að þetta mál eigi að vera í atvinnuveganefnd. það segir sig sjálft að við þyrftum ekki að leggja þetta mál fram ef ekkert ætti að nýta. Hver og einn getur lesið út úr þingsköpum hvað atvinnuveganefnd á að gera“ - Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Hlátursköllin eru lýsandi fyrir þau leiðindi sem þetta mál er komið í. Sumir þingmenn kvarta undan því að sitja undir þessari atkvæðagreiðslu, Margrét Tryggvadóttir...“ - Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.