Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ætlar að ræða m.a um 50 milljarða króna frískuldamarkið á bankaskattinum sem Alþingi samþykkti fyrir áramót á fundi sínum fyrir hádegi í dag. Rætt hefur verið um það upp á síðkastið hvergið talan var fundin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Blaðið bendir á að Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, sagði í pistli á bloggsíðu sinni í gær að talan hefði fyrst verið nefnd af sérfræðingum fjármálaráðuneytisins þegar meirihluti nefndarinnar leitaði eftir hugmyndum um hvert frískuldamarkið skyldi vera.

Þingmennirnir Árni Páll Árnason, Steingrímur J. Sigfússon og Guðmundur Steingrímsson óskuðu eftir fundi um málið fyrir helgi. Í bréfi Árna til Frosta segir að frískuldamarkið virðist sérsniðið að hagsmunum einnar fjármálastofnunar, MP banka.

Í bloggpistlinum segir m.a. að óskaði hafi verið eftir upplýsingum frá frá fjármálaráðuneytinu um það hvernig bankaskatturinn leggst á einstök fyrirtæki. Blaðið bendir jafnframt á að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði sagt í samtali við fréttastofu 365 miðla um helgina að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi ekki gert tillögu um upphæð frískuldamarksins heldur aðeins lagt fram útreikninga.