Til harðra orðaskipta hefur komið á Alþingi á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga um tillögu að breytingum og fækkun ráðuneyta sem nú stendur yfir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins spurði hverju sæti nú þegar tekið sé að halla á seinni hluta kjörtímabilsins en gengið verður til kosninga að ári. Hann taldi togstreitu skapast þegar ný ráðuneyti verði sett á laggirnar sem sum hver verði með svipuð eða sömu mál og önnur. „Er formið á ráðuneytisskipan svipað í öðrum lndum eða erum við að taka upp aðra stefnu?“ spurði hann.

Í svipaðan streng tók Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti auk þess að breytingarnar verði væntanlega ekki komnar í framkvæmd á kjördag.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, svaraði því hins vegar til að löngu væri orðið tímabært að setja á laggirnar ný ráðuneyti á borð við atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, jafnvel hefði sameiginlegt móðurráðuneyti fjár- og efnahagsmála getað skipt sköpum fyrir hrun. Hann benti á að breytingar á hinum Norðurlöndunum séu tíðar um mitt kjörtímabil.

Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, gagnrýndi frumvarpið einnig og sagði það stangast á við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.

Þá sakaði hann stjórnarandstæðinga um að standa gegn ólíkum skoðunum.

„Okkur skorti ólík sjónarmið fyrir hrun. Sú hugmynd að best sé að útrýma öllum ólíkum hugmyndum geðjast mér ekki,“ sagði hann og beindi orðum sínum að Steingrími J.