Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, lagði til í dag að dagskrá þingsins í dag yrði framlengd fram á kvöld og fóru þingmenn stjórnarandstöðunnar fram á að atkvæði um það yrðu greidd með nafnakalli. Bæði þingmenn Samfylkingarinnar og VG mótmæltu harðlega lengri þingfundi. Þingmenn stjórnarflokkanna greiddu aftur á móti tillögunni atkvæði sitt.

Þegar Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, rökstuddi atvkæði sitt sagði hann að þingsályktunartillaga um að slíta viðræðum við Evrópusambandið væri óþörf. „Fyrr skal ég dauður áður en ég greiði leið hennar í gegnum þingið. Ég segi nei,“ sagði Össur þegar hann greiddi atkvæði um kvöldfund.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagðist nýlega hafa rætt við forseta þingsins um starfsemi þingsins og kvöldfundi. Því komi tillaga um kvöldfund í kvöld á óvart. „Ég batt nú satt að segja vonir við að hæstvirtur forseti legði fram slíka tillögu í sátt við þingflokka,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.

Svo fór að lokum að tillaga um kvöldfund var samþykkt með 34 atkvæðum gegn 21. Átta voru fjarstaddir. Fátítt er, jafnvel einsdæmi, að atkvæði um það hvort halda eigi kvöldfund skuli tekin með því að greiða atkvæði með nafnakalli.