*

mánudagur, 25. október 2021
Erlent 18. maí 2021 16:53

Þingnefnd húðskammar keppinaut Alvotech

Helsti keppinautur Alvotech er sagður með bellibrögðum hafa komist hjá samkeppni í skýrslu bandarískrar þingnefndar.

Ingvar Haraldsson
AbbVie framleiðir Humira, söluhæsta lyf heims.

Lyfjafyrirtækið AbbVie er í nýútkominni skýrslu bandarískrar þingnefndar sagt hafa með fólskubrögðum tekist að halda einokunarstöðu sinni í Bandaríkjunum á gigtarlyfinu Humira. Lyfið er það mest selda í heimi en AbbVie selur það fyrir um 16 milljarða dollara í Bandaríkjunum á ári.

Íslenska lyfjafyrirtækið Alvotech, sem Róbert Wessman stofnaði, hefur unnið að þróun líftæknihliðstæðulyfs sem leysa á Humira af hólmi með ódýrari hætti. 

AbbVie er meðal annars gefið að sök að hafa sent inn á annað hundrað einkaleyfisumsóknir til að reyna að hindra og hægja innkomu keppinauta á markaðnum. Þannig hafi það með einokunartilburðum komið í veg fyrir að keppinautar fari með lyf á markað fyrr en í fyrsta lagi árið 2023 í Bandaríkjunum þó sex mismunandi líftæknihliðstæður hafi þegar verið samþykktar af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu FDA.

Fyrirtækinu virðist raunar hafa gengið betur að hindra samkeppni en það átti sjálft von en AbbVie hafði fyrir nokkrum árum búist við því að lyf keppinauta yrðu komin á markað árið 2018.

Þá hafi félagið hækkað verð Humira lyfsins um nær 500% frá því það kom fyrst á markað árið 2003 svo ársmeðferð með lyfið kostar nú yfir 77 þúsund dollara eða um 9,6 milljónir króna. Sambærileg meðferð í Evrópu, þar sem líftæknihliðstæður eru á markaði, kosti helming til þriðjung af því sem hún kosti í Bandaríkjunum.

Verðhækkunin er sögð m.a. vera afleiðing þess að laun forstjórans, Richard Gonzalez, voru beintengd við sölu lyfsins. Í skýrslunni segir að verð á Humira hafi verið hækkað um 30% á tíu mánaða tímabili eftir að tengingunni var komið á.

AbbVie er einnig gefið að sök að hafa átt í þöglu samráði við Amgen, sem átti að vera helsti keppinautur félagsins. Humria og lyfið Enbrel, sem Amgen framleiðir fyrir sömu kvilla, hafi undanfarin ár verið hækkuð margoft og jafn mikið í hjá hvoru félagi fyrir sig þó fyrirtækin eigi að vera ótengd og í beinni samkeppni.

Alvotech berst í dómssölum við AbbVie

Alvotech hefur nýlega stefnt AbbVie en íslenska líftæknifyrirtækið telur að einkaleyfisumsóknir félagsins ekki standast skoðun og vill fá að koma líftæknihliðstæðulyfi sínu á markað. AbbVie hafði áður stefnt Alvotech vegna vinnu fyrrverandi starfsmanns AbbVie fyrir Alvotech.

Alvotech lauk nýverið 4,5 milljarða króna fjármögnun og stefnir á markað næsta vetur.

Stikkorð: AbbVie Alvotech Humira