Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur gefið út að hann hyggist rjúfa þing og efna til þingkosninga í landinu þrátt fyrir að enn séu tvö ár eftir af kjörtímabilinu. Reuters greinir frá þessu.

Í gær voru birtar tölur sem sýndu að landsframleiðsla hefði dregist saman í landinu um 1,6% á þriðja ársfjórðungi. Meðalspár höfðu gert ráð fyrir 2,1% hagvexti og ollu niðurstöðurnar því nokkrum vonbrigðum. Einnig varð samdráttur í landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi en þá nam hann 7,3%.

Japönsk stjórnvöld höfðu áætlað að hækka söluskatt í landinu á næsta ári, en í ljósi þessarar dræmu niðurstöðu hefur forsætisráðherra jafnframt ákveðið að áformunum verði frestað. Talið er líklegt að þingkosningar fari fram í desember.