Katrín M. Guðjónsdóttir tók við starfi markaðsstjóra Skeljungs núna um mánaðamótin. Aðspurð segir hún nýja starfið leggjast mjög vel í sig. „Ég hlakka mikið til og það eru spennandi verkefni fram undan,“ segir Katrín. Katrín hefur undanfarin tvö ár starfað sem markaðsstjóri hjá Innnes, en á árunum 2008- 2013 var hún markaðsstjóri hjá N1. Spurð af hverju hún ákvað að fara aftur að vinna hjá olíufélagi segir hún ástæðuna vera að þetta sé skemmtilegur samkeppnismarkaður og bransi, fullur af skemmtilegu fólki.

Grafísk hönnun dýrmætur grunnur

Katrín er með BA-gráðu í grafískri hönnun og markaðsfræði og lauk MBA-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands nú í vor. Hún segir bakgrunn sinn í grafískri hönnun nýtast mjög vel í starfi sínu. „Í markaðsfræðinni er maður mikið að nota myndræn skilaboð (e. visual design), það hefur bæði með letur og leturgerð að gera, og öll samskipti sem eru í myndrænu formi, litafræðin og myndefni. Þetta heyrir allt saman og hefur með það að ná til fólks að gera. Þessi fræði nýtast mjög vel þegar maður er að vinna auglýsingar og vinna strategíu í sambandi við hvernig útlit og umgjörð á að vera. Það er því mjög dýrmætur grunnur að hafa grafísku hönnunina,“ segir Katrín. „Viðskiptafræðin er svo mjög góð yfirbygging og nauð- synlegt að hafa þó maður hafi alltaf smá viðskiptafræði og viðskiptavit í sér. Það að fá þau verkfæri sem maður fær í MBA-náminu, þegar maður er með 10-11 ára reynslu, var fullkomin viðbót og gefur mér góða innspýtingu inn í verkefni framtíðarinnar,“ segir Katrín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .