Bandaríska fyrirtækið Space Nation býður upp á geimfaraþjálfun fyrir verðandi geimfara, og hyggur á tvo leiðangra hér á landi á næstunni. Nálgun þess og þjálfun er heildstæð og nær yfir allt frá líkamlegri þjálfun til jarðfræði, auk tiltekins hugsunarháttar um lífið á jörðinni og vandamál hennar.

Ofur-Boot Camp
Markhópurinn skiptist í megindráttum í tvennt: „Annars vegar erum við að horfa á fólk sem er raunverulega að hugsa um að fara út í geim,“ sem Hjörtur segir að verði brátt að möguleika fyrir mun fleiri en áður. „Það eru þónokkur fyrirtæki sem bjóða upp á það: Blue Origin, SpaceX, Virgin Galactic og fleiri, öll í startholunum, búin að prófa flaugarnar sínar og næsta skref er bara að senda fyrstu farþegana.“

Hinn markhópurinn er fólk sem hefur ekki í huga að fara út í geim á næstunni, en vill takast á við þá áskorun sem geimfaraþjálfunin er, áskorunarinnar sjálfrar vegna. Einskonar ofurBoot Camp, eins og Hjörtur kemst að orði.

Feta í fótspor Apollo geimfaranna
Space Nation hefur skipulagt tvo leiðangra hér á landi á næsta ári. „Annar er það sem við köllum tungllendingarleiðangur, sem fer fram í Ódáðahrauni og í kringum Öskju. Þar verðum við á sömu slóðum og Apollo-geimfararnir þjálfuðu á áður en þeir fóru til tunglsins, og gerum sumar af sömu æfingunum og þeir gerðu.“

Auk líkamlega hlutans munu þátttakendur læra jarð- og stjörnufræði, stjórnun, liðsheild, lífsbjörg, leit og björgun, og samskipti, sem er sérsvið Hjartar. Með þeim í för verður svo geimfari frá NASA sem deilir með þeim reynslu sinni.

Seinni ferðin verður farin á Vatnajökul. „Þar erum við að horfa á hvernig maður ber sig að í framandi og öfgakenndu umhverfi. Við förum mikið í stjórnunarhæfileika þar, og skoðum meðal annars suðurskautsfarana; þeirra leiðtogastíl og árangurinn af honum. Við verðum líka með Arctic Trucks með okkur, þar sem við horfum meira á farartæki fyrir leiðangra og hvernig við aðlögum þau að framandi aðstæðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .