Sunna Einarsdóttir er fjármálastjóri Deloitte á Íslandi og liðstjóri viðskiptalausna hjá fyrirtækinu. Hún tók nýverið við fyrrnefnda hlutverkinu af Margréti Sanders, en Margrét hafði sinnt hlutverki fjármálastjóra sem hluta af starfi hennar sem framkvæmdastjóri og eigandi hjá Deloitte í sextán ár.

Sunna flutti til Danmerkur árið 2007 og tók þar bachelorgráðu og mastersgráðu í hagfræði og stjórnun frá Háskólanum í Árósum. „Ég var í ýmsum störfum þar með náminu, til dæmis að kenna rekstrarhagfræði í háskólanum og svo vann ég í fjármáladeildinni hjá Árósarbæ. Það mætti því segja að ég hafi fengið mjög danskt uppeldi í þessum viðskiptaheimi,“ segir hún.

„Árið 2011 þá flutti ég til Kaupmannahafnar og fór að vinna hjá Deloitte þar eftir að hafa komist þar inn í svokallað „Graduate Program“. Þar var ég á sviði sem heitir „Business Process Solutions“. Eftir að ég flutti heim hef ég tekið þátt í að byggja upp samskonar svið hérna heima, Viðskiptalausnir.“

Nýjung á markaðnum

„Þetta er í rauninni svolítið nýtt fyrir þennan íslenska markað. Þarna er ráðið fólk sem er nýbúið með mastersgráðu og það er þjálfað upp til þess að geta leyst verkefni fjármálastjóra innan fárra ára. Þá er byrjað á grunninum í bókhaldi, launum, skatti, afstemmingum og uppgjöri til dæmis og svo byggt ofan á, farið í greiningar, skýrslugerðir, verðlagningu á vöru og fleira slíkt. Svo er byggt ofan á þar til að þú getur uppfyllt allar skyldur fjármálastjóra.

Þjónustan felst í því að lána fólk út, til dæmis ef það eru veikindi í fyrirtækjum eða barnseignarorlof, eða bara álagstímabil, þá er einstaklingur með þessa þjálfun með haldgóða þekkingu á öllum sviðum fyrir fjármáladeildirnar. Verkefni okkar eru til dæmis afleysingar fyrir bókara, það sem kallast „business controller“ eða „financial controller“ í Danmörku, og fjármálastjóra.

Það er mikil eftirspurn eftir þessari þjónustu og og það eru um 200 manns sem vinna hjá deildinni hjá Deloitte í Danmörku. Núna erum við rétt í kringum þrjátíu manns í deildinni og við erum líka að bjóða útvistun þar sem við tökum öll helstu verkefni fjármáladeilda inn til okkar og sjáum um allt bókhaldið, laun og slíkt.“

Ítarlegt viðtal við Sunnu er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .