Þjarmað var að Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra á alþingi í dag vegna ummæla Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á fundi Norðurskautsráðsins í gær. Á fundinum í gær gagnrýndi forseti Íslands aðstoðarutanríkisráðherra Noregs fyrir að ræða deiluna á Krímskaga á vettvangi ráðsins.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Gunnar Braga hvort tilefni væri til þess að stofna til samstarfs með forsetanum þar sem stefna Íslands í utanríkismálum væri rædd.  „Eða erum við kannski kominn á þann stað að forseti íslands verði að koma hingað niður á þing og veita andsvör?“ spurði Guðmundur. Gunnar Bragi sagði ljóst að ákvörðun utanríkisstefnunnar væri hjá ráðherra og ríkisstjórn.

Katrín Júlíusdóttir ítrekaði fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar og spurði hvað ráðherra fyndist um þá atburðarrás sem varð í gær. Hvernig hann hygðist taka á málinu. „Við eigum að taka þátt í því að láta Rússa heyra það, sama hvar við erum stödd,“ sagði Katrín. „Við getum ekki annarsvegar sagt að við séum tilbúin að beita þvingunaraðgerðum með annarri hendinni en vera svo til í að sitja í sætum klúbbum með Rússum án þess að gagnrýna þá,“ bætti hún við.

„Það má hins vegar velta fyrir sér hvort það hafi ekki verið óheppilegt að taka upp þessa orðræðu við norska ráðherrann. Það er mjög mikilvægt að við reynum að halda norðurskautssamstarfinu eins og það er í dag. Um leið og það kemur brot í það þá held ég að voðinn sé vís,“ sagði Gunnar Bragi.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði mikilvægt að forsetinn talaði ekki út fyrir utanríkisstefnuna. Bæði skipti máli hvað hann segði en líka að hann veldi  rétta stund til að segja það sem hann segði.