Þingmenn stjórnarandstöðunnar þjörmuðu að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Mörður Árnason spurði hvernig Hanna Birna hygðist bregðast við í þágu rannsóknar lögreglu á leka minnisblaðs sem búið var til í ráðuneytinu til fjölmiðla og hvatti hana til að íhuga stöðu sína. Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, fullyrti að um sakamálarannsókn væri að ræða. Spurði hún Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hvort Hönnu Birnu væri sætt í embætti.

Hanna Birna sagðist þakka Merði fyrirspurnina þótt málið hefði verið rætt áður í fyrirspurnartímum og sérstakri umræðu. „Ég hef ítrekað svarað þessu máli og mér finnst mér hreinum ólikindum að menn skuli leyfa sér hér á hinu háa Alþingi að halda því fram að einhver sæti sakamálarannsókn,“ sagði Hanna Birna. Sá hinn sami þyrfti að kynna sér löggjöfina betur.

„Málið er löngu komið út fyrir það að snúast um einstaka hælisleitendur eða málsmeðferð . Þetta er orðið rammpólitískt mál sem lítur að allt öðrum þáttum,“ sagði Hanna Birna. Hún benti líka á að Mörður hefði upplýst að hann sjálfur hefði skjalið undir höndum.

Bjarni Benediktsson ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að hann telji ekki ástæðu fyrir Hönnu Birnu að stíga til hliðar.