DSP BlackRock Micro Cap sjóðurinn hefur skilað fjárfestum allt að 275% ávöxtun á seinustu þremur árum. Þetta er ein allra besta ávöxtun sjóðs af þessari stærðargráðu, en stærð sjóðsins nemur um 500 milljónum dala.

Sjóðurinn hefur sérhæft sig í fjárfestingum á Indlandi og hefur grætt stórlega á aukinni hagsæld þar í landi. Sjóðurinn hefur þó nánast lokað á nýja fjárfesta, þar sem sjóðstjórarnir eru farnir að eiga í erfiðleikum með að finna hagstæða fjárfestingarkosti.

Vandi sjóðsins er þó afar ólíkur mörgum öðrum sjóðum, sem hafa fundið fyrir flótta fjárfesta. Segja má að sjóðurinn sé einfaldlega að þjást af velgengni, á tímum þar sem erfitt er að gera góð kaup.