Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillöguna um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í síðasta lagi 20. október um tillögur stjórnlagaráðs. Tillagan voru samþykkt með 35 atkvæðum gegn 15.

Tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lagði til að sex afmarkaðar spurningar yrðu lagðar fyrir þjóðina, en þær eru um hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, en einnig er spurt um náttúruauðlindir, um stöðu þjóðkirkjunnar, um persónukjör, jöfnun atkvæðavægis og um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Greidd voru atkvæði um allar greinar tillögunnar sérstaklega og voru þær allar samþykktar. Allar breytingartillögur voru felldar.

Eftirfarandi spurningar verða bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
1.     Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
*    Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
*    Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
2.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
*    Já.
*    Nei.
3.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
*    Já.
*    Nei.
4.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
*    Já.
*    Nei.
5.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
*    Já.
*    Nei.
6.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
*    Já.
*    Nei.