*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 17. janúar 2016 14:05

Slæmt fyrir þjóðarbúið ef kvótinn færi í uppboð

Formaður SFS segir hugmyndir um breytingar á veiðistjórnunarkerfinu jafn margar og hugmyndasmiðina.

Ólafur Heiðar Helgason
Gígja Dögg Einarsdóttir

Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Jens Garðar Helgason, formann SFS:

Hvað finnst þér um hugmyndir um markaðsuppboð á veiðiheimildum?

„Hugmyndir um uppstokkun á kerfinu eru nánast jafn margar og hugmyndasmiðirnir. Ég segi bara fyrir mína parta að það kerfi sem við erum með núna er kerfi sem margar aðrar þjóðir horfa til.“

Jens vísar í skýrslu norska sjávarútvegsráðuneytisins sem bar saman framboð norsks og íslensks fisks á Bretlandsmarkaði. Norski fiskurinn komi í tveimur toppum vegna þess að þar sé tengingin á milli vinnslu og útgerðar slitin í sundur. Ekki sé hugsað um að hafa jafnt og gott flæði inn á markaðinn og hámarka gæðin.

„Íslendingar eru leiðandi og hafa forskot á aðrar þjóðir vegna íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er einmitt þetta kerfi sem gerir okkur kleift líka að bregðast við alls kyns áföllum eins og til dæmis ef markaðir lokast eða sem dæmi núna í makrílnum því það er ekki bara Rússland sem lokaðist. Nígería, sem var 20% markaður, lokaðist líka þannig að við vorum að missa 70-75% af þeim mörkuðum sem voru að kaupa af okkur makríl. En það er akkúrat af því að fyrirtækin eru sterk, þau eru með sterkt sölunet, sem þau geta brugðist við, þrátt fyrir að við fáum lægri verð, og staðið svona áföll af sér.“

Þannig að þér hugnast til dæmis ekki hugmyndir í þá veru að ríkið bjóði út veiðiheimildir í nýjum fisktegundum, á borð við makríl?

„Það er ákveðin veiðireynsla á makrílnum og um makrílinn gilda nákvæmlega sömu lög og reglur eins og aðrar fisktegundir. Álit umboðsmanns Alþingis er mjög skýrt í þessu máli: Veiðireynsla og síðan er það sett í kvóta. En það hefur nú reyndar staðið styr um það ennþá og stjórnvöld verið hikandi í þessu máli.“

Jens bendir á að fyrir um ári hafi átt sér stað mikil umræða um makrílinn og langt fram eftir vori. Nú sjáist hins vegar að hann sé eins og hver önnur afurð.

„Það þarf líka að vera hægt að selja hann og fá góð verð fyrir hann, og það þarf að veiða hann með hagkvæmum hætti. Við sjáum bara hvað gerðist til dæmis fyrir smábátana þegar Rússland og Nígería lokast. Verðin lækka og þá er bara ekki orðið hagkvæmt að veiða á smábátunum eins og menn gerðu áður. Við getum lent í árferði þar sem makríllinn leitar lengra út og við getum bara veitt þetta á stærri skipin, uppsjávarskipin og togarana.

Þannig að ég held, þegar upp er staðið, að þjóðarbúið muni tapa ef menn ætla að fara að bjóða upp aflaheimildirnar á hverju ári eins og sumir hafa verið með hugmyndir um. Þá er enginn langtímahugsunarháttur í greininni og það verða engar langtímafjárfestingar. Það er búið að fjárfesta núna fyrir milljarða, jafnvel milljarðatugi, bara til þess að hámarka arðinn af makrílnum.“

Ítarlegt viðtal við Jens er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is