Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, tilkynntu fyrir stundu að þau hafi fundað með Mario Monti, sem nýverið tók við embætti forsætisráðherra Ítalíu, og ætli þau að mæla fyrir tillögum sem eiga að bæta stjórnarhætti á evrusvæðinu.

Fram kom í máli þeirra á blaðamannafundi í dag, að tillögurnar, sem verða kynntar á næstu dögum, feli ekki í sér breytingar á hlutverki evrópska seðlabankans.

Breska útvarpið, BBC, bendir á að Frakkar og Breta deili ekki sömu skoðunum um hlutverk bankans, svo sem því hvort hann eigi að vera lánveitandi til þrautavara og hvort evrusvæðið geti staðið í skuldabréfaútgáfu í eigin nafni frekar en hvert land geri það á eigin reikning.

Fjárfestar og miðlarar virðast hafa hlustað af athygli á þjóðarleiðtogana því svo til á sama augnabliki og Angela Merkel sagðist mótfallin samevrópskri skuldabréfaútgáfu tóku helstu hlutabréfavísitölur á meginlandi Evrópu sveig niður á við.

Breska FTSE-vístitalan fór úr 0,23% hækkun í 0,44% mínus, Dax-vísitalan í Þýskalandi fór úr 1% plús niður í 0,38% mínus og CAC 40-vísitalan í Frakklandi stendur nú í 0,14% lækkun eftir 0,97% hækkun fyrr í dag.