Í kjölfar óveðursins og áhrifa þess á raforku og fjarskiptakerfi landsins hafa stjórnvöld ákveðið að láta kanna hvað sé hægt að gera til að tryggja að þau séu betur í stakk búin til að takast á við ofsaveður og náttúruhamfarir.

Meta stjórnvöld það svo að öryggi samfélagslegra innviða lúti að þjóðaröryggi landsins en eins og töluvert hefur verið í fréttum hafa heilu byggðalögin verið rafmagnslaus eða með stopult rafmagn dögum saman eftir óveðrið í síðustu viku.

Að því tilefni hafa stjórnvöld stofnað starfshóp fimm ráðuneyta til að meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði flutnings- og dreifikerfis raforku og fjarskipta, auk þess að skoða samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, mun leiða vinnu starfshópsins. Miðað er við að hann skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2020.

Starfshópurinn mun beina athygli sinni sérstaklega að afhendingaröryggi raforku. Þannig verður kallað eftir skýrslum og greiningum af hálfu Landsnets og dreifiveitna á því tjóni á flutnings- og dreifikerfi raforku sem varð dagana 10. og 11. desember, hvernig fyrirtækin voru undirbúin, hvernig unnið var í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir fyrirtækjanna, sem og hvað hefði betur mátt fara.

Starfshópnum er falið að greina upplýsingar og koma fram með tillögur um úrbætur sem geta eflt flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að það geti betur mætt slíkum atburðum og þar með verði unnt að lágmarka það samfélags- og efnahagslega tjón sem hlýst af langvarandi og víðtæku rafmagnsleysi á tilteknum landsvæðum.

Hluti af vinnu starfshópsins er jafnframt að leggja mat á tiltækt varaafl í landinu við slíkar aðstæður og stýringu þess. Jafnframt er starfshópnum falið að taka til umfjöllunar og úrvinnslu þær tillögur sem liggja fyrir um einföldun leyfisveitingarferla að því er framkvæmdir í flutningskerfinu varðar. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins .