Þingsályktunartillaga utanríkisráðuneytisins var samþykkt mótatkvæðalaust í dag. Stefnan horfir til þess að veita umhverfis- og öryggishagsmunum Íslands á norðurslóðum og aðild Íslands að NATO sérstaklega athygli, svo málefnin verði enn hluti af lykilstoðum varna Íslands.

Þjóðaröryggisstefnan áréttar að stuðlað verði að auknu netöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum, eins og hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þá verði Ísland og íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra tók í gærkvöldi þátt í seinni umræðu um tillöguna. „Þetta eru mjög merkileg tímamót. Alþingi hefur, í fyrsta skipti í lýðveldissögunni, samþykkt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Sú þverpólitíska sátt sem náðst hefur hér á Alþingi um þennan mikilvæga málaflokk er sérstakt ánægjuefni", segir Lilja.