Frá og með helginni og fram í janúar munu fara fram prófkjör og val á lista hjá flestum stjórnmálaflokkum fyrir komandi alþingiskosningar sem fara fram í vor.

Það er þó vinsæll samkvæmisleikur í pólitíkinni að velta því upp hvaða þingmenn myndu detta af þingi ef gengið yrði til kosninga nú og hvaða þingmenn kæmu nýir inn, eins og Viðskiptablaðið hefur nokkrum sinnum áður fjallað um. Það hugsa líklega fáir eins mikið um sæti þingmanna eins og þeir sjálfir og því er ekki úr vegi að meta stöðu þeirra þingmanna sem nú sitja í ljósi nýjasta Þjóðarpúls Capacent.

Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúlsins í október, brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna. Nánar r fjallað um Þjóðarpúlsinn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gær og pólitíkin metin út frá honum.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 10 þingmönnum á meðan Framsóknarflokkurinn tapar einum manni. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 10 þingmönnum og það sem vekur enn meiri athygli í þetta sinn er að Björt framtíð myndi fá fimm þingmenn ef gengið yrði til kosninga í dag. Þannig fengi Sjálfstæðisflokkurinn 26, Samfylkingin 16, Vinstri grænir átta, Framsóknarflokkurinn átta og Björt framtíð fimm þingmenn.

Eina leiðin til að meta hvaða þingmenn myndu detta af þingi er að miða við framboðslista flokkanna fyrir kosningarnar 2009, þó eðli málsins samkvæmt megi gera  ráð fyrir að þeir myndu breytast nokkuð ef gengið yrði til kosninga nú.

Sjálfstæðisflokkurinn: +10 þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn mældist í október með 36,2% fylgi á landsvísu en náði hæst 39% fylgi í maí sl. Hann yrði í dag stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum fyrir utan Reykjavík suður þar sem hann mælist jafn nú stór og Samfylkingin (til gamans má geta þess að Reykjavík norður er sterkasta vígi Samfylkingarinnar).

Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig þingmönnum í öllum kjördæmum, mest í Reykjavík suður þar sem flokkurinn fengi sex þingmenn kjörna og bætir því við sig þremur þingmönnum. Fylgi flokksins í Reykjavík norður hefur þó dalað nokkuð og þar mælist flokkurinn einungis með 28,8% fylgi og er þannig sem fyrr segir jafn stór og Samfylkingin.

Sé miðað við framboðslistana frá 2009 myndu þau Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Gréta Ingþórsdóttir ná inn á þing í dag í Reykjavík suður og Sigurður Kári Kristjánsson í Reykjavík norður.

Sterkasta vígi flokksins er eins og svo oft áður Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn mælist með 44,2% fylgi og fengi í dag fimm þingmenn kjörna. Þannig myndi flokkurinn bæta við sig tveimur þingmönnum, þeim Írisi Róbertsdóttur og Kjartani Ólafssyni. Fylgi flokksins í kjördæminu, sem hefur iðulega verið um og yfir 42%, minnkaði nokkuð í sumar en hefur nú leitað hratt upp á við á ný.

Í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 39,7% fylgi og fengi í dag sex þingmenn kjörna. Þannig myndu, samkvæmt framboðslistanum frá 2009, þau Óli Björn Kárason og Rósa Guðbjartsdóttir ná inn á þing í dag.

Þó svo að NA-kjördæmi sé sem fyrr veikasta vígi Sjálfstæðisflokksins myndi hann engu að síður bæta við sig einum þingmanni í dag, sem er Arnbjörg Sveinsdóttir skv. framboðslistanum frá 2009. Það sama myndi gerast í NV-kjördæmi þar sem Eyrún I. Sigþórsdóttir myndi komast inn á þing. Í hvoru kjördæmi fyrir sig, þ.e. NA og NA, fengi flokkurinn kjörna þrjá menn.

Samfylkingin: -4 þingmenn

Samfylkingin fengi 22,1% fylgi á landsvísu skv. Þjóðarpúlsinum en flokkurinn mældist með 17,5% fylgi í mars sl. og hefur því nokkuð bætt sig í sumar. Flokkurinn myndi í dag missa fjóra þingmenn, flesta af landsbyggðinni, en í byrjun þessa árs hefði flokkurinn misst átta þingmenn skv. Þjóðarpúlsinum.

Samfylkingin myndi í dag halda sínum fjórum þingmönnum í Reykjavík norður (sem er sem fyrr segir  stærsta vígi flokksins þar sem hann mælist með 28,8%) en myndi aftur á móti tapa einum þingmanni í Reykjavík suður og fá þrjá kjörna þar. Sá þingmaður heitir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og er forseti Alþingis en eins og fram hefur komið hefur Ásta Ragnheiður ekki gefið kost á sér í komandi prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar þó hún hafi ekki lýst því yfir að hún sé hætt í stjórnmálum.

Samfylkingin fengi um 20% fylgi í Suðvesturkjördæmi, tapar þar einum þingmanni, og fengi nú þrjá þingmenn kjörna. Magnús Orri Schram , fv. þingflokksformaður, myndi þannig missa sæti sitt miðað við framboðslistann 2009. Samfylkingin myndi líka missa einn mann í Suðurkjördæmi og sá heitir Róbert Marshall , sem að vísu hefur nú gengið til liðs við Bjarta framtíð.

Í NA-kjördæmi fengi Samfylkingin þrjá þingmenn kjörna í dag og héldi þannig þingmannafjölda sínum í kjördæminu. Þá fengi flokkurinn bara einn þingmann í NV-kjördæmi sem þýðir að Ólína Þorvarðardóttir myndi falla af þingi.

Vinstri grænir: - 6 þingmenn

Vinstri grænir (VG) mælast nú með 11,7% fylgi á landsvísu og myndi miðað við það missa sex þingmenn af þeim fjórtán sem flokkurinn hefur nú (fengi átta kjörna). Þingmannastaða Vinstri grænna er nokkuð flókin eins og áður hefur verið greint frá. Þrátt fyrir að hafa fengið 14 þingmenn í síðustu kosningum eru aðeins skipa 12 þingmenn í dag þingflokk VG.  Þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir hafa gengið úr þingflokknum en Þráinn Bertelsson (sem lýst hefur því yfir að hann muni hætta í vor) gekk til liðs við flokkinn á kjörtímabilinu.

Norðausturkjördæmi, kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar, er sem svo oft áður sterkasta vígi flokksins þar sem hann mælist með 18,7% fylgi. VG fengi í dag tvo þingmenn í kjördæminu sem þýðir að Björn Valur Gíslason myndi detta af þingi. Þá myndi VG tapa tveimur þingmönnum í Norðvesturkjördæmi og fengi aðeins einn mann kjörinn. Miðað við það myndu þau Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásmundur Einar Daðason (sem genginn er til liðs við Framsókn) falla af þingi miðað við framboðslistann árið 2009.

Þá tapa Vinstri grænir sitthvorum þingmanninum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur en flokkurinn fengi í dag kjörna tvo þingmenn í Reykjavík norður og einn í Reykjavík suður. Þær Lilja Mósesdóttir (sem gengin er til liðs við Samstöðu) og Álfheiður Ingadóttir myndu miðað við þetta falla af þingi.

Það sem hins vegar vekur athygli nú er að Vinstri grænir myndu halda eina þingmann sínum í Suðurkjördæmi ólíkt því sem verið hefur síðustu mánuði. Sá þingmaður er Atli Gíslason sem að vísu er genginn úr flokknum en skv. Þjóðarpúlsinum hefur Atli ekki mælst inni í tæpt ár.

Framsókn: -1

Framsóknarflokkurinn fengi í dag um 12% fylgi á landsvísu og myndi samkvæmt því tapa einum þingmanni. Þannig fengi flokkurinn kjörna átta þingmenn en er með níu í dag. Þó er rétt að taka fram að Framsókn þarf ekki að bæta við sig nema 0,4% á landsvísu til að bæta við sig níunda þingmanninum og hann yrði þá tekinn af Bjartri framtíð (sem fjallað er um hér neðar).

Samkvæmt Þjóðarpúlsinum mælist flokkurinn aðeins með tæplega 6% fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og myndi þannig tapa báðum þingmönnum sínum þar. Það eru þau Vigdís Hauksdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson , formaður flokksins. Sigmundur Davíð hefur þó tilkynnti að hann hyggist bjóða sig fram í NA-kjördæmi í vor.

Framsókn myndi hins vegar fá þrjá þingmenn kjörna í NV-kjördæmi, sem er sterkasta vígi flokksins, og bæta við sig einum manni. Samkvæmt framboðslistanum frá 2009 er það Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.

Björt framtíð með fimm þingmenn

Ólikt því sem verið hefur síðustu mánuði mælist Björt framtíð, flokkur Guðmundar Steingrímssonar, nú með 6,9% fygli sem þýðir að flokkurinn fengi í dag fimm þingmenn kjörna. Þingmannafjöldinn skýrist að mestu leyti á jöfnunaratkvæðum. Þannig fengi Björt framtíð einn þingmann í Reykjavík suður, tvo þingmenn í Reykjavík norður og tvo í SV-kjördæmi. Framboðslistar liggja ekki fyrir en gera má ráð fyrir að þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall verði í oddvitasætum fyrir listann. Sem fyrr segir þarf þó ekki mikið til að Besti flokkurinn tapi fimmta þingmanni sínum yfir til Framsóknar.

Samstaða, flokkur stofnaður af Lilju Mósesdóttur, náði miklu flugi í byrjun árs og í febrúar sl. mældist framboðið með 11,3% fylgi og átta þingmenn. Þeim fækkaði niður í sex strax í mars og í dag mælist framboðið einungis með 2% fylgi.

Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í síðustu kosningum. Nú tilheyra þrír þeirra, þau Birgitta Jónsdóttir (Reykjavík-suður), Þór Saari (SV-kjördæmi) og Margrét Tryggvadóttir (S-kjördæmi), Hreyfingunni - en einn þeirra, Þráinn Bertelsson (Reykjavík-norður), Vinstri grænum. Öll myndu þau falla út af þingi ef kosið yrði nú. Dögun, sem er afsprengi Borgarahreyfingarinnar, mælist með 3,8% fylgi líkt og Hægri grænir.