Í peningamálum Seðlabankans segir að alþjóðlegar efnahagshorfur hafi breyst og óvissa aukist frá því að peningingamál voru síðast gefin út í maí síðastliðnum.

Segja þeir að mestu muni um ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu og vísbendingar séu um að dregið hafi úr efnahagsumsvifum í Bretlandi í kjölfarið.

Tvísýnni hagvaxtarhorfur

Telja þeir því að hagvaxtarhorfur fyrir helstu viðskiptalönd Íslands hafi versnað og séu tvísýnni en áður.

Jukust þjóðarútgjöld um ríflega 8% á fyrsta fjórðungi þessa árs og mældist hagvöxtur 4,2%. Telja þeir að á árinu í heild verði hagvöxtur 4,9% sem er 0,4 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí.

Minna aðhald í ríkisfjármálum

Hagvöxtur er áfram drifinn áfram af miklum tekjuvexti og bættum efnahag heimila og fyrirtækja.

Jafnframt bætist við minna aðhald í ríkisfjármálum, en á móti vegi að peningastefnan hefur hægt á vexti innlendrar eftirspurnar og beint hluta tekjuaukans í innlendan sparnað.

Ríflega 4% hagvöxtur þriðja árið í röð

Gerir bankinn ráð fyrir að áfram verði ríflega 4% hagvöxtur á næsta ári og yrði það þriðja árið í röð þar sem hann væri um og yfir 4%.

Í langtímaspám er þó gert ráð fyrir að hagvöxturinn verði um 2,5% árið 2018.

Skortur á vinnuafli

Minnkandi atvinnuleysi og vaxandi skortur á starfsfólki lýsir aukinni spennu í þjóðarbúskapnum, en ríflega 40% fyrirtækja segjast búa við skort á vinnuafli.

Var það hlutfall síðast svo hátt í lok ársins 2007.

Innflutt verðhjöðnun og hækkandi gengi krónunnar

Þrátt fyrir þetta hefur verðbólgan minnkað á ný og var hún einungis 1,1% í júlí.

Kemur þetta þetta til af hækkandi gengi krónunnar og verðhjöðnun innfluttrar vöru og þjónustu sem vegur á móti innlendum verðbólguþrýstingi.