*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Innlent 3. janúar 2021 14:02

Þjóðbúningar eins og jepparnir í dag

Dóra Jónsdóttir gullsmiður telur þjóðbúninga á jarðarvirði hafa verið stöðutákn síns tíma. Notar um 30 munstur.

Höskuldur Marselíusarson
Dóra Jónsdóttir lærði gullsmíði hjá föður sínum, Jóni Dalmannssyni, sem keypti gullsmíðaverkstæðið sem þá var í Ingólfsstræti af Magnúsi Erlendssyni.
Gígja Einarsdóttir

Starfsemi Gullkistunnar á Frakkastíg má rekja aftur til 8. áratugar 19. aldar, en Dóra Jónsdóttir gullsmiður hefur sjálf verið með eigin rekstur þar í 42 ár. Faðir hennar hóf að framleiða hringa fyrir ferðamenn sem hún telur vinsælustu ferðamannagjöfina til langs tíma en hún sjálf hefur átt ríkan þátt í að halda þjóðbúningahefðinni sterkri.

Það má segja að þjóðbúningasilfrið hafi alla tíð verið uppistaðan í starfseminni hjá Dóru, en með henni á verkstæðinu starfar í dag Halla Bogadóttir gullsmiður sem tekur við starfsemi Gullkistunnar þegar fram líða stundir.

„Áður fyrr var oft haft á orði hvað það væru margir gullsmiðir á Íslandi, en það var vegna þess að það þurfti alltaf að vera að smíða silfur á þjóðbúningana, sem þá voru ekki bara þjóðbúningar heldur venjulegur klæðnaður fólksins," segir Dóra sem hefur löngum haldið vinsæl námskeið í gerð víravirkis á þjóðbúninga.

„Fólk er ansi duglegt að fara á námskeið í þjóðbúningagerð, en þá lærir það líka að meta búningana sem gerist þegar fólk setur sig svolítið inn í hlutina og hefur þurft að hafa fyrir því. Það fylgir þessu mikill saumaskapur og handavinna, en konur eru ekkert að hika við að fara út í það í dag."

Situr á sjóði fjölbreyttra munstra

Aðspurð þekkti Dóra bæði til móðurbróður blaðamanns, Árna Höskuldssonar gullsmiðs og vissi um afa hans og nafna sem var gullsmiður á Ísafirði.

„Fólk kemur oft með gamla muni og er að láta meta þá, og leita að upplýsingum um uppruna og þá fór ég að leita mér upplýsinga um eldri gullsmiði. Á tímabili þegar lítið var verið að sækjast eftir silfri í þjóðbúninga þá var minna við að vera á verkstæðunum og gullsmiðir fóru að sérhæfa sig við ýmislegt annað, en þá voru margir gullsmiðir sem komu sér upp kannski bara einhverju einu munstri í þjóðbúninga. Þessu gamla verkstæði fylgdi hins vegar svo mikill sjóður af gömlum mótum af munstri. Það hefur alltaf verið metnaður hjá okkur að hafa mikla fjölbreytni, ætli bara myllurnar sem við erum að nota í dag séu ekki í kringum 30," segir Dóra.

Hún segist ekki geta gert upp á milli þeirra fjögurra tegunda af kvenkynsþjóðbúningum sem til eru. „Það er auðvitað mismikið skart sem fylgir þeim, en búningarnir sem kallaðir hafa verið faldbúningar hér áður fyrr hafa verið að ná afskaplega miklum vinsældum. Það var þó ekki fyrr en um og upp úr aldamótunum 1900 sem það fór að sjást svona mikil breyting á upphlutnum, hann var ekki svona viðhafnarmikill áður fyrr. Í raun getur maður talað um annars vegar hversdagsbúninga, eins og peysufötin, og svo sparibúninga, eins og upphluturinn er í dag, faldbúningurinn og skautbúningurinn."

Dóra hefur löngum verið virk í félagsstarfi þeirra sem hafa viðhaldið bæði þjóðbúningahefðinni og íslensku þjóðdönsunum. „Það kom nú til af sérstökum áhuga, en ég fór í lýðháskóla í Svíþjóð þar sem voru skemmtikvöld á laugardögum þar sem dansaðir voru það sem kallaðir voru leikir, sem þekktist hérna líka, en þá var dansað og hoppað og skoppað við ákveðin kvæði sem voru sungin í stíl. Þá var kannski sungið um eitthvert sérstakt málefni og dansað eftir því," segir Dóra.

„Þetta fannst mér ansi skemmtilegt svo að stuttu eftir að ég kom heim þá var þjóðdansafélagið stofnað og þá fannst mér upplagt að fara í það og sjá hvort þeir væru ekki að gera eitthvað á svipuðum nótum. Þar fórum við í að endurvekja gamla íslenska karlabúninginn, sem þeir klæddust allir í gamla daga, sumir vilja kalla þetta smalabúning, en það má alveg eins kalla þetta stúdenta- eða skólapiltabúning því strákarnir fóru í skólann í sparifötunum á sínum tíma og þá voru þeir svona klæddir.

Það er hins vegar greinilegt að í gegnum tíðina hefur alltaf verið lagt meira upp úr kvenbúningnum, þannig að við fórum að grínast með það og kalla þetta stöðutákn, því það er líkast því að karlarnir hafi viljað sýna stöðu sína með því að klæða konurnar sínar vel. Það voru engir jeppar þá, en sumir búningarnir sem konurnar voru í voru metnir á jarðarvirði."

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér