*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 3. september 2016 15:09

Þjóðhagsleg hagkvæmni ekki metin

Í lokaskýrslu rammaáætlunar kemur fram að ekki hafi verið forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarkosta.

Trausti Hafliðason
Kristinn Magnússon

Í niðurstöðum faghóps sem fjallaði um nýtingu orkulinda segir að án rannsókna á þjóðhagslegum kostnaði og ábata sé verkefnisstjór nokkur vandi á höndum. Henni sé í raun falið að fylla inn í ákveðnar eyður.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að lokaskýrslan litist af því að hún hafi verið unnin í tímaþröng.

"Það hefur bæði komið fram hjá formanni verkefnastjórnar og umhverfisráðherra," segir Hörður. "Raunar kemur þetta líka skýrt fram í umsögn faghóps 4 í skýrslunni." Að sögn Harðar var faghópur 4 skipaður alltof seint eða hálfu ári áður en lokaskýrslan kom út. Þess sjáist glögg merki í niðurstöðum hópsins.

Hér er Hörður að vísa til þess að undir verkefnisstjórninni störfuðu fjórir faghópar. Faghópur 1 fjallaði um náttúru og menningarminjar. Faghópur 2 um útivist og hlunnindi, faghópur 3 um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og faghópur 4 um nýtingu orkulinda.

Fyllt í eyður

Í niðurstöðum faghóps 4 segir "að ekki séu forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga  rammaáætlunar. Það er  niðurstaða faghópsins að hvorki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um fjárhagslegan kostnað og ábata né mat á öðrum kostnaði og ábata sem leggja megi til grundvallar áreiðanlegu mati á þjóðhagslegum áhrifum. Það er hinsvegar mat hópsins að afar mikilvægt sé að slíkt mat fari fram, og jafnframt að gera ætti slíkt mat að hluta af ferli samþykktar virkjanaframkvæmda."

Faghópurinn er þeirrar skoðunar að "án rannsókna á þjóðhagslegum kostnaði og ábata sé verkefnisstjórn nokkur vandi á höndum. Henni sé í raun falið að fylla inn í þær eyður sem eru á þekkingu okkar á t.d. kostnaði vegna breytinga á náttúru.  Faghópurinn telur, eins og fram hefur komið, slíkt verulegum vandkvæðum bundið. Það er mat faghópsins  að  afar  varlega ætti að fara í að túlka fyrirliggjandi gögn í samhengi þjóðhagslegrar hagkvæmni hvort sem er til að réttlæta nýtingu eða vernd."

Afhverju lá svona mikið á

Hörður segir að í svona stóru máli, þar sem verið sé að taka mjög þýðingarmiklar ákvarðanir til langs tíma um nýtingu og verndun auðlindanna, þá þurfi að vanda mjög til verka.

"Lögin eru skýr, það á að taka tillit til náttúru og menningarsögulegra minja en einnig þjóðhagslegra áhrifa. Við teljum að það hafi verið óheppilegt að verkefnisstjórnin hafi komist í þá aðstöðu að þurfa að vinna áætlunina í tímaþröng. Henni hefur ekki gefist tími til að skoða þá þætti, sem lögin kveða skýrt á um að eigi að skoða, og þá er ég að vísa til þjóðhagslegu áhrifanna af nýtingu auðlinda. Afhverju lá svona mikið á? Afhverju var fagfólkinu ekki gefinn nægur tími til að leggja fram þau mikilvægu gögn sem þurfa að liggja til grundvallar þegar svona stór ákvörðun er tekin? Það er ljóst að þrýstingurinn um svona umfangsmikla flokkun virkjunarkosta er ekki kominn frá Landsvirkjun. Ég velti fyrir mér hvaðan þessi þrýstingur kemur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is