Árni Páll Árnason - Þjóðmenningarhúsið 02.05.11
Árni Páll Árnason - Þjóðmenningarhúsið 02.05.11
© BIG (VB MYND/BIG)
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, mun ekki síðar en í febrúar á næsta ári leggja fram á Alþingi skýrslu um þjóðhagsvarúðartæki sem mögulegt er að koma á. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fjallaði um tækin í stefnuræðu sinni á þingi í gær. Hún sagði að á þessu þingi verði peningamálastefnunni sköpuð ný umgjörð, samþykki Alþingi breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands með heimild til beitingar þjóðhagsvarúðartækja til að greiða fyrir framkvæmd gengis- og peningamálastefnunnar.

Í viðtali við Viðskiptablaðið 22. september sl. sagði Árni Páll að tækin geti stutt við afnám hafta, eða komið í stað þeirra. Sem dæmi nefndi hann heimild stjórnvalda til þess að takmara starfsemi fjármálastofnana, til dæmis takmörkun á skuldsetningu banka í erlendri mynt.

„Að framlagðri skýrslunni þarf næst að kanna hvaða reglur rúmast innan EES samningsins og hverjar þeirra kalla á annarskonar samninga við ESB ef við tökum ekki upp evru. Tækin geta þar af leiðandi verið forsenda peningamálastefnu í opnu hagkerfi. Mörg af þjóðhagsvarúðartækjum er skynsamlegt að hafa óháð því hvort við tökum upp evru eða ekki,“ sagði Árni Páll.