Nýlega var Jón Viðar ráðinn framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs ÍSAM, en hann hefur áður starfað sem markaðsstjóri Coca-Cola fyrir Vífilfell, og markaðsstjóri Húsasmiðjunnar. Jón Við- ar sem er með B.Sc. gráðu í markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík, segist vera spenntur að taka við nýju starfi.

„Ég er ábyrgur fyrir annars vegar markaðsmálunum og hins vegar sölumálunum, þetta er svolítið stór deild hjá okkur, þetta er 25 manna deild. Ég kem úr nokkuð góðum skóla hjá Coca-Cola Company, mað- ur lærði alveg helling þar,“ segir Jón Viðar.

„Auðvitað koma alltaf einhverjar breyttar áherslur með nýju fólki en það hefur líka verið hreyfing hjá okkur, við festum kaup á heildsölu Eggerts Kristjánssonar ekki alls fyrir löngu og komu mörg glæsileg merki inn hjá þeim sem nú eru orðin hluti af okkar vöruúrvali.“

Spilar með bumbuboltaliði

„Ég er sem sagt tæplega fertugur, 39 ára gamall og lærður markaðsfræðingur. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sölu- og markaðsmálum, hef alltaf starfað við það en ég lærði markaðsfræðina í Háskólanum í Reykjavík, sem hét reyndar Tækniskólinn þá,“ segir Jón Viðar beðinn um að segja frá sjálfum sér.

„Ég fór fyrst að vinna sem markaðsstjóri Húsasmiðjunnar, Blómavals og þess alls saman, svo fór ég í eigin atvinnurekstur með vini mínum, fyrirtæki sem heitir Áberandi, var þar í fimm ár, og svo fór ég að vinna fyrir Novartis sem er lyfjafyrirtæki, áður en ég fór að vinna fyrir Vílilfell.“

Eiginkona hans er Auður Kristín Þorgeirsdóttir og eiga þau fjögur börn. „Ég er með fullt hús af börnum, er mikið heima í frítímanum með þeim, svo finnst mér rosagaman að horfa á fótbolta og spila hann sjálfur,“ segir Jón Viðar og kallar liðið sitt bumbuboltalið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .