*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 15. október 2020 19:03

Þjóðin komst á bragðið

Sendingafjöldi fyrir netverslanir hefur aukist um 40% í ár og lítið dregið úr þó rýmkað hafi um tíma um samskiptahömlur.

Höskuldur Marselíusarson
Elísa Dögg Björnsdóttir hefur lengi starfað hjá TVG-Zimsen en tók við sem framkvæmdastjóri félagsins í ársbyrjun.
Gígja Einarsdóttir

TVG-Zimsen jók hagnað sinn um tæplega þriðjung á síðasta ári samhliða 10% tekjuaukningu, en í ár hefur sendingafjöldi fyrir netverslanir aukist um nærri 40%. Reksturinn var í ársbyrjun samþættur móðurfélaginu Eimskip, sem kom sér vel þegar finna þurfti nýjar lausnir vegna minnkandi farþegaflugs.

Hagnaður TVG-Zimsen jókst um ríflega 29% á síðasta ári, úr tæplega 188 milljónum króna í 243 milljónir króna. Á sama tíma jukust tekjur félagsins um 10%, úr 4,1 milljarði í ríflega 4,5 milljarða króna. Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, segir félagið búa að því að hafa farið í hagræðingaraðgerðir snemma á árinu sem hafi undirbúið það vel undir stormasamt ár nú.

„Grunnurinn að góðu gengi er að við leggjum mikið upp úr því að veita framúrskarandi þjónustu enda leggur starfsfólk okkar mikinn metnað í að finna réttu lausnirnar fyrir viðskiptavini okkar. Ég er ótrúlega stolt af fólkinu okkar, en maður finnur ekki síst í því ástandi sem skapast hefur á þessum Covid tímum hversu liðsheildin skiptir miklu máli, og vil ég meina að hún endurspeglist í þessum tölum," segir Elísa.

„Breiddin í þjónustuframboðinu hefur hjálpað okkur að komast klakklaust í gegnum storminn nú, enda erum við í bæði flug- og sjósendingum, lyfjaflutningi og ýmiss konar sérlausnum, en á sama tíma og dregið hefur úr sumu af því hefur verið 38% aukning á þessu ári í sendingarfjölda hjá TVG Express sem sér um þjónustu við netverslanirnar. Við sáum þetta sérstaklega í fyrstu bylgju Covid hér á landi fyrir innlendar netverslanir, sem við höfum lagt aukna áherslu á að þjónusta. Við náum nú að dreifa samdægurs til 80% landsmanna en við bættum Akranesi, Selfossi og Reykjanesbæ við það þjónustustig okkar nú í september."

Að mati Elísu Daggar hefur þjóðin svolítið komist á bragðið með að panta vörur heim því þó að rýmkað hafi um ýmsar hömlur í sumar minnkaði netverslun lítið.

„Með minnkandi farþegaflugi til landsins frá mars þurftum við að leggja mikinn kraft í að þróa og finna lausnir fyrir viðskiptavini okkar. Það hefur þýtt að við höfum þurft að beina vöruflutningum í auknum mæli í gegnum færri flughafnir en áður og nú kemur flugfrakt nær eingöngu með fraktvélum, þá aðallega frá Liege í Belgíu, Boston í Bandaríkjunum og Dublin á Írlandi," segir Elísa.

„Síðan eru fleiri vöruflokkar hjá okkur að vaxa. Við erum til dæmis umboðsaðilar fyrir CMA sem er eitt af stærstu skipafélögum í heimi og eru mikið í heilgámaflutningi frá Asíu fyrir þá sem eru að kaupa í miklu magni, og sjáum við mikinn vöxt í því hjá okkur. Ég trúi því að við séum með langbesta innflutningskerfið inn í landið frá Asíu því vörurnar þurfa ekkert að stoppa í Evrópu eins og hjá mörgum öðrum, heldur komast þær viðstöðulaust áfram hingað."

Náðu að koma vörum frá Kína og Ítalíu

Elísa Dögg er mjög þakklát fyrir hvað starfsmenn félagsins búa yfir mikilli þekkingu sem hafi hjálpað til við að finna lausnir. „Þegar ástandið var hvað verst til dæmis á Ítalíu var erfitt að koma vörum þaðan en við náðum alltaf að leysa það. Svo þegar við vorum að flytja inn grímur, hanska og annað frá Kína þegar mest var verið að leita að slíkum vörum og mikið lá á því að koma þeim hratt og vel til landsins, gekk það upp með góðum samstarfsaðila í Kína, þó oft geti verið erfitt að fá pláss fyrir vörur úr landi þar," segir Elísa Dögg.

„Þarna hjálpar fyrst og fremst sú mikla breidd í þjónustu sem við erum að bjóða upp á, það er enginn markaður sem byggir á flutningsmiðlun sem við snertum ekki. Það liggur við að sama hvað við erum beðin um að gera, við leysum það. Við tökum einnig að okkur ýmiss konar sérverkefni, hvort sem verið er að flytja rándýrt listaverk út fyrir einhverja sýningu, eða taka upp bíómyndir uppi á jökli, en kvikmyndaverkefnin hafa verið að taka við sér aftur eftir hlé í vor og sumar.

Síðan fluttum við til dæmis mjaldrana tvo til Vestmannaeyja á síðasta ári og aftur út í kví í sumar. Loks erum við með dótturfyrirtækið Gára sem sinnir allri þjónustu við skip, eins og skemmtiferðaskipin þó það hafi vissulega dregist mikið saman á þessu ári. Þeir sinna líka þjónustu við togara og þegar herinn kemur til landsins, þar erum við í góðri stöðu á markaðnum."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.