Halla Hrund Logadóttir, nýr orkumálastjóri , segir afar mikilvægt að Ísland sýni framsýni í allri útfærslu orkumálanna. Mikilvægt sé að framtíðarstefna í málaflokknum hafi innbyggðan sveigjanleika.

„Við þurfum að hafa það í huga hvernig við viljum að þessi sviðsmynd líti út áratugi fram í tímann nú þegar við tökum skref til framtíðar. Við þurfum að tryggja að við séum að nýta auðlindirnar með sjálfbærum hætti þannig að þær nýtist áfram komandi kynslóðum, og fái sem mest út úr hverju verkefni eins og tekist hefur að mörgu leyti í jarðhitageiranum eins og við sjáum með fyrirtækjum eins og Bláa Lóninu, Carbfix og Geosilica. Orðatiltækið „í upphafi skyldi endinn skoða" á vel við hér. Við þurfum að nálgast verkefnið af vandvirkni og það þarf að vera alveg skýrt hvert við stefnum og hvers vegna. Orkuskiptin munu eiga sér stað í fösum sem við getum ekki séð nákvæmlega fyrir, enda fleygir tækninni stöðugt fram og nýjar lausnir að líta dagsins ljós sem gera okkur kleift að nýta orkuna betur. Sumar þessara breytinga eru nokkuð fyrirsjáanlegar á meðan aðrar geta verið ófyrirsjáanlegar og umbylt þeim sviðsmyndum sem við sjáum fyrir okkur í dag. Þess vegna skiptir miklu máli að sú stefna sem við mótum okkur sé framsýn og hafi innbyggðan sveigjanleika til að nýta óvænt tækifæri og yfirstíga óvæntar áskoranir."

Umgjörð verði að vera skýr

Í huga Höllu er mikilvægt að löggjafinn tryggi að leikreglur séu skýrar og að þjóðin njóti arðs af orkuauðlindunum.

„Hingað til hefur eignarhald orkufyrirtækjanna að mestu verið opinbert og þjóðin fengið sinn hlut, m.a. með arðgreiðslum frá þeim en regluverkið hefur verið að þróast þannig að eignarhald verður fjölbreyttara í framtíðinni. Við munum líklega koma til með að sjá mun fleiri einkaaðila stíga inn á þetta svið, s.s. á sviði vindorku, og í ljósi þess þarf að ræða það hvernig tryggt verði að arður af auðlindunum skili sér til þjóðarinnar. Það er mikilvægt að þessar auðlindaleikreglur séu settar áður en hagsmunir eru komnir í spilið, þannig að það verði sátt um þessi mál. Það liggur mikið á stjórnmálunum að tryggja að öll umgjörð sé skýr, gegnsæ fyrir alla aðila og skilvirk. Það er mikilvægt bæði fyrir orkuiðnaðinn og þjóðina."

Nánar er rætt við Höllu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .