Á árunum 2008 til 2016 komu fleiri ferðamenn til landsins heldur en allt tímabilið þar á undan frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þetta er eitt af því sem kom fram í morgunverðarfundi Arion banka um stöðu ferðamannaiðnaðarins, sem bar yfirskriftina Ferðamannalandið Ísland: Draumaland eða Djöflaeyja.

Er þá vísað í það hvort þjóðinni muni takast að ráða við þessa aukningu eða ekki, og nú standi þjóðin á krossgötum í því.

Vöxtur slær öll met í ár

Spáir greiningardeildin því að vöxturinn í komu ferðamanna muni slá öll met í ár, en síðan fari að hægja á vextinum. Á næsta ári spá þeir að heildarfjöldinn verði um 2,2 milljónir og að árið 2018 fari fjöldinn upp í 2,5 milljónir.

Jafnframt spá þeir að það muni draga úr árstíðasveiflum, en enn sem komið er, er um 90% allra hótelgistinátta ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu, suðurnesjum og suðurlandi.

Draumaland eða Djöflaeyja

Niðurstaðan í því hvort okkur muni takast að ráða við þessa aukningu, muni skera úr um hvort landið verði að því sem þeir skilgreina sem Djöflaeyju, en þá verði engin aðgangsstýring, innviðir grotnandi og óánægja í samfélaginu, krónan styrkist um of sem valdi öðrum útflutningsgreinum skaða, ferðaþjónustufyrirtæki sjái fram á versnandi afkomu, betur borgandi ferðamenn fælist landið og hnekkir verði á orðspori landsins.

Hins vegar ef vel tekst til geti hér risið draumaland, þar sem skynsamleg gjaldtaka nýtist til uppbyggingar innviða, ferðamenn dreifist vel í tíma og rúmi, vel verði ráðið við vöxtinn og ánægja verði í samfélaginu, gengi krónunnar haldist í jafnvægi svo aðrar útflutningsgreinar blómstri, framleiðni í greininni vaxi og afkoma batni, og áfram sé haldið í gott orðspor landsins.

Vægi ferðaþjónustu 10% af VLF

Á síðustu árum hefur vægi ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu aukist, og má ætla að hún væri um 4-8% lægri nú en hún er í dag ef ekki væri fyrir uppgangs hennar. Segja þeir að heildarvægi ferðaþjónustunnar í landsframleiðslunni hafi verið um 8% í ár og verði um 10% hennar næsta ár.

Hingað til hefur styrking krónunnar haft lítil áhrif á neyslu ferðamanna, en áhrifin eru þó sýnileg og gætu magnast upp ef gengi krónunnar styrkist enn frekar. Gjaldeyrisforðinn væri neikvæður um allt að 8% ef ekki væri fyrir ferðamannaukninguna, í stað þess að vera jákvæður eins og hann er í dag.

2.500 ný hótelherbergi til 2020

Hótelnýting hefur batnað víðast hvar á landinu, á sama tíma og verð gistingar í Reykjavík hefur hækkað um tæp 40% á síðustu þremur árum, ef horft er á verð þeirra í evrum.

Afkoma í ferðaþjónustu hefur einnig batnað mikið, fjárhagurinn í geiranum hefur batnað mikið en ekki eru miklar vísbendingar um útlánabólu til iðngeirans. Áætla þeir að um 2.500 hótelherbergi verði byggð í Reykjavík fram til ársins 2020.

Gjaldtaka brýn

Segja þeir brýnt að ná samkomulagi um sanngjarna gjaldtöku til að ráða við aukið álag á hagræna og samfélagslega innviði landsins, eins og flugvelli, hafnir, vegakerfi, heilbrigðiskerfi og löggæslu sem dæmi.

Nefnir deildin þar til að mynda hækkun gistináttaskatts og og aukna beina gjaldtöku á einstaka ferðamannastöðum.