Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að ef náttúrupassi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, verði að lögum muni landsmenn ekki þurfa að fara eftir þeim. Þetta kom fram í fyrstu umræðu um náttúrupassan á Alþingi í dag. „Ef að lög eru svo vond að þau misbjóða meginþorra þjóðarinnar, þá er ekkert sem segir þingmönnum eða þjóðinni að fylgja þeim," sagði Birgitta. „Það á enginn náttúruna, ekki ég, ekki þið, enginn," sagði hún jafnframt.

Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti sig ósammála þessu viðhorfi. „Ég tel að eignarétturinn veiti eigendum á hverjum tíma heimild til þess að útfæra aðgang að sínu landi eins og þeir vilja. Ríkið er það auðvitað engin undantekning. Ríkið getur farið þessa leið eða aðrar leiðir eins og ég bendi á. Það er í hæsta máta eðlilegt að eigendur jarða hafi forræði á þessum eignum,“ sagði hún.

Hún taldi einnig óeðlilegt að alþingismenn töluðu fyrir því að vanvirða lög sem Alþingi hefði sjálft sett. „Mér finnst í hæsta máta óeðlilegt þegar háttvirtir þingmenn lýsa því yfir að þeir ætla ekki að lúta lögum." Spurði hún jafnframt hvar þessir þingmenn dregðu línuna og hvort þeim þætti til dæmis eðlilegt að hún myndi neita að borga skatta því að þeir þóknuðust henni ekki.