*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 20. mars 2020 16:19

Þjóðinni fjölgaði um 2% á síðasta ári

Í ársbyrjun voru landsmenn ríflega 364 þúsund, eftir fjölgun um 7 þúsund. Karlmenn nærri 10 þúsund fleiri en konur.

Ritstjórn
Nærri tíu þúsund fleiri karlmenn eru á landinu en konur samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar. Mynd tekin á Heiðarhorni á Skarðsheiði við Borgarfjörð.
Haraldur Guðjónsson

Íbúum Íslands fjölgaði um 7.134 á síðasta ári, eða um 2,0%, og var fjöldi landsmanna 364.134 þann 1. janúar 2020 síðastliðinn að því er kemur fram í yfirliti yfir þjóðina sem Hagstofa Íslands hefur tekið saman.

Þar af var fjölgun karlmanna nokkuð meiri eða 2,2%, og voru þeir í heild 186.941, meðan fjölgun kvennmanna nam 1,7%, og voru þær í heild 177.193. Það þýðir að um 9.748 fleiri karlmenn eru í landinu en konur.

Af 83.358 svokölluðum kjarnafjölskyldum eins og Hagstofan skilgreinir þær var skipting þeirra eftir fjölskyldugerðum þannig:

  • 40,1% - hjón án barna
  • 27,5% - hjón með börn
  • 13,1% - einstæðar mæður með börn
  • 12,5% - sambúðarfólk með börn
  • 5,2% - sambúðarfólk án barna
  • 1,6% - einstæðir feður með börn

Talsverð fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en íbúum þar fjölgaði um 4.803 í fyrra eða um 2,1%. Hlutfallslega var þó mest fólksfjölgun á Suðurlandi, 3,9%, og Suðurnesjum, 2,6%.

Einnig fjölgaði íbúum á Norðurlandi vestra, eða um 1,3%, en minna á Vesturlandi, þar sem fjölgunin var 0,9%, sem var sú sama og á Austurlandi en á Vestfjörðum nam fjölgunin 0,7% en minnst á Norðurlandi eystra, þar sem hún var 0,5%.

Alls voru 72 sveitarfélög á landinu um áramótin, en í 39 þeirra var fjöldinn undir 1.000 manna lágmarkinu sem sveitarstjórnarráðherra hefur boðað að verði sett á. Þar með voru 33 yfir markinu, en sjö sveitarfélög voru með færri íbúa en 100. Einungis tíu sveitarfélög höfðu hins vegar fleiri en 5.000 íbúa.