Franska verslunarráðið hefur hafið starfsemi á Íslandi aftur eftir þriggja ára hlé. Aðstoðarframkvæmdastjóri Norðurlanda hjá Business France telur að Ísland hafi getu og færni til þess að koma aftur af stað þeirri umfangsmiklu starfsemi sem ríkti hjá íslenskum fyrirtækjum í Frakklandi fyrir hrun.

Giles Debuire, aðstoðarframkvæmdastjóri Norðurlandasviðs hjá Business France viðskiptaráðinu, er staddur á Íslandi til að funda með fyrirtækjum sem hafa áhuga á að fjárfesta í Frakklandi. Debuire hefur unnið við að auka fjárfestingu Íslendinga í Frakklandi í yfir áratug. Hann segir að frá árinu 2005 hafi verið mikill áhugi meðal íslenskra fyrirtækja á franska markaðinum bæði fyrir útflutningi og fjárfestingu. Frá því ári kom ráðið til Íslands árlega til 2012 en ákvað þá að taka sér hlé þar sem íslensk fjárfesting í Frakklandi hefði dalað verulega. Mörg fyrirtæki, meðal annars Bakkavör og Actavis, hættu starfsemi í Frakklandi og gjaldeyrishöft flæktu málin.

Yfir 7.000 starfsmenn hjá íslenskum fyrirtækjum í Frakklandi

Í dag hafa frönsku sendiráðin stofnað Business France þar sem fyrri verslunarráð sameinuðust. Ráðið ákvað árið 2015 að hefja aftur starfsemi á Íslandi. Debuire sér nú um að koma með íslenska fjárfestingu til Frakklands fyrir hönd ráðsins og auka útflutning franskra fyrirtækja til landsins. Hann segir ráðið hafa fundið fyrir endurskipulagningu íslenska efnahagskerfisins í kringum þrjár stórar atvinnugreinar: Jarðhita, sjávarútveg og upplýsingatækni. Það hafi í kjölfarið ákveðið að mikilvægt væri fyrir þá að vera með starfsemi á Íslandi. Fyrir hrun var gríðarlegur áhugi meðal íslenskra fyrirtækja að fjárfesta í Frakklandi, þá voru Bakkavör, Prómens og ýmis sjávar­ útvegsfyrirtæki með umfangsmikla starfsemi þar. Samtals störfuðu yfir 7.000 Frakkar fyrir íslensk fyrirtæki árið 2007. Alfesca var með 2.000 starfsmenn, Bakkavör var með 1.000 og Prómens með 750.

Nú er áhuginn að vaxa aftur og Debuire heimsótti 15 fyrirtæki í ferð sinni, sem nú þegar vinna í Frakklandi. Hann heimsótti meðal annars Marel, til að athuga hvernig starfsemin gangi í Frakklandi auk þess sem hann hitti fleiri fyrirtæki sem hafa áhuga á að starfa þar. Debuire segir afnám hafta ekki hafa spilað inn í ákvörðun Business France að koma til Íslands, þar sem hún hafi verið tekin áður en tilkynnt var um afnámið. Hún hafi snú­ ið meira að endurreisn íslensks efnahagslífs. Debuire telur jafnframt að of snemmt sé að segja til um áhrif afnáms hafta á íslenska fjárfestingu í Frakklandi. Spurður hvort hann telji að íslensk fyrirtæki geti aftur náð svona miklum starfsmannafjölda í Frakklandi segist Debuire telja að það geti tekið tíma. Hins vegar telur hann Ísland hafa getu og færni til þess. Hann segir mikinn kraft í íslensku fyrirtækjunum, nefna megi þess til stuðnings að jafn margir Frakkar vinna fyrir norsk fyrirtæki og unnu fyrir íslensk fyrirtæki þegar mest var.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .