Frá árinu 2002 hafa heildargreiðslur ríkisins til reksturs prestsembætta og Biskupsstofu, viðhaldsframkvæmda og sókna þjóðkirkjunnar numið tæpum 66 milljörðum króna á föstu verðlagi. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata.

Í svarinu segir að framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar hafi aukist á tímabilinu frá 2002 til 2008 en eftir hrun hafi þau lækkað vegna krafna um hagræðingu í rekstri. Þá kemur einnig fram að vegna úrsagna úr þjóðkirkjunni hafi tekjur hennar einnig minnkað. Áætlað er að hrein áhrif úrsagna á tímabilinu frá 2002 til 2014 svari til um 251 milljónar króna lækkunar á árlegu framlagi sóknargjalda.