*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 8. október 2014 13:59

Þjóðkirkjan reisi trúarbyggingar frekar en önnur félög

Af þeim sem tóku afstöðu í könnun MMR voru 42,4% andvíg því að Félag múslima fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Ritstjórn

MMR hefur birt niðurstöður úr könnun þar sem athuguð var afstaða Íslendinga til þess að mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi. 

Meirihluti var hlynntur því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi. Af þeim sem tóku afstöðu voru 64,4% fylgjandi því og 9,5% andvíg. 

Hins vegar voru skiptar skoðanir á því hvort að önnur trúfélög ættu að fá að byggja trúarbyggingar á Íslandi. Þannig sögðust 49,2% vera fylgjandi því að Ásatrúarfélagið fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi, 36,5% voru fylgjandi því að Búddistafélagið fái að byggja trúarbygginar, 31,0% voru fylgjandi því að Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan fái að byggja trúarbyggingar og 29,7% voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 9,5% vera andvíg því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi, borið saman við að 42,4% sögðust andvíg því að Félag múslima fái að byggja trúarbygginar á Íslandi.

Könnunin var framkvæmd milli 20. og 25. september og var svarfjöldi 1.436 einstaklingar. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um könnunina hér.

Stikkorð: MMR