Alþjóðasamtök sérfræðinga á sviði fasteignamats (The International Association of Assessing Officers - IAAO) veittu Þjóðskrá Íslands í dag æðstu viðurkenningu sína fyrir aðferðir og tæknilega vinnu við nýtt fasteignamat á Íslandi. Þetta var tilkynnt á ársþingi samtakanna, sem stendur yfir í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum.

Þjóðskrá deildi viðurkenningunni með matsstofnun í Seattle í Bandaríkjunum. Örn Ingvarsson, framkvæmdastjóri mats- og hagsviðs Þjóðskrár Íslands, veitti viðurkenningunni viðtöku. Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðskrár, segir að það eitt að Þjóðskrá hafi á dögunum verið tilnefnd til viðurkenningarinnar sé mikill heiður og yfirlýsing af hálfu IAAO en vissulega sé það sérstakt gleðiefni að hafa nú farið alla leið í tilkynningu frá Þjóðskrá. „Ætli tilfinningin sé ekki eitthvað í líkingu við þegar fólk í kvikmyndaiðnaðinum fær Óskarsverðlaun!“ segir Haukur. „Við vorum vissulega að fá æðstu alþjóðlegu viðurkenninguna sem veitt er á okkar fagsviði og fögnum því innilega fyrir hönd allra starfsmanna Þjóðskrár.

Viðurkenningin er mikilvæg staðfesting þess að Íslendingar eru í fremstu röð að þessu leyti og að Þjóðskrá Íslands hefur verið á réttri leið frá því henni var falið að annast fasteignamat að öllu leyti árið 2009 en hún hafði áður haft með matið að gera að hluta til. Fasteignamat á að endurspegla gangverð fasteigna og matið skiptir miklu máli fyrir landsmenn, m.a. vegna skattlagningar og fasteignaviðskipta. Við fáum viðurkenninguna í ljósi þess að útreikningar, framkvæmd og kynning fasteignamatsins er talin vera til fyrirmyndar á alþjóðavísu.“ Þjóðskrá varðveitir alla kaupsamninga á fasteignamarkaði hérlendis. Hún hefur lagt upplýsingar úr tugum þúsunda þinglýstra kaupsamninga í þrjá áratugi í gagnagrunn og styðst við fimm undanfarin ár við matið hverju sinni.