Héraðsdómstóll í Frankfurt í Þýskalandi bannaði í dag starfsemi leigubílaþjónustunnar Uber þar í landi. Fyrirtækið, sem er bandarískt og staðsett í San Franisco, á yfir höfði sér sekt upp á kvartmilljón evra eða sem nemur rúmum 38 milljónum króna brjóti fyrirtæki í bága við bannið.

Bannið var sett á í kjölfar háværra mótmæla samtaka leigubílstjóra í Þýskalandi, sem töldu starfsemi Uber ekki í samræmi við þýsk lög um fólksflutninga, að því er fram kemur í umfjöllun um málið á vef breska dagblaðsins Financial Times .

Leigubílstjórar hafa mótmælt starfsemi Uber víðar, s.s. í Bretlandi.

Uber er reyndar ekki eiginleg leigubílaþjónusta í strangasta skilningi. Um er að ræða þjónustu sem snjallsímaeigendur geta nýtt sér. Ef þeir hafa sett upp Uber-appið þá geta þeir fundið bíl í eigu annars einstaklings og fengið afnot af honum í ákveðinn tíma.