Gengi bréfa í BMW, Volswagen og Daimler hefur lækkað talsvert í dag í kjölfar þess að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, minntist á það að bílaframleiðendurnir þyrftu að borga 35 prósenta skatt, ef þeir hyggðust flytja bíla sína inn til Bandaríkjanna. BBC fjallar um málið.

Trump sagði í viðtali við þýska dagblaðið Bild, að fyrirtækin ættu ekki að eyða tíma sínum og peningum í það að opna verksmiðjur í Mexíkó. Ummæli Trump voru túlkuð sem hótun til helstu bílaframleiðenda Þýskalands.

Hlutabréf í BMW lækkuðu um 1,5 prósentustig, en einnig lækkaði gengi hlutabréfa í Volkswagen um 1,8 prósentustig og Daimler um 1,6 prósentustig.

Verðandi forseti Bandaríkjanna tók einnig fram að ef að fyrirtækin vildu gera „bestu bíla í heimi“ væri þeim það guðvelkomið, en þau gætu hins vegar gleymt því að flytja bílana til Bandaríkjanna, án þess að borga 35 prósent skatt.

Efnahagsráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, sagði í kjölfarið að í stað þess að refsa þýskum bílaframleiðendum, ættu Bandaríkjamenn heldur að einbeita sér að því að framleiða betri bíla. Hann bætti við að ef Bandaríkjamenn skella toll á innflutta bíla myndi bandaríski bílaframleiðsla verða verri, dýrari og lélegri.