Þjóðverjar eru þeir einu sem geta komið í veg fyrir uppstokkun evrusvæðisins. Þetta segir Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands.

Sikorski skrifar grein um skuldakreppuna á evrusvæðinu í breska viðskiptablaðið Financial Times í dag og fjallar þar um erindi sem hann flutti í Berlín í Þýskalandi í gærkvöldi. Sikorski segir Evrópu ramba á barmi upplausnar. Hann hafi ekki upplifað nokkuð þessu líkt á pólitískum ferli sínum og gagnrýndi Þjóðverja fyrir seinagang.

Sikorski sagði enga aðra en Þjóðverja geta lagt hönd á plóg og viðurkenndi að hann væri vafalítið fyrsti ráðherra í sögu Póllands sem gagnrýni Þjóðverja.