Meirihluti þýska þingsins samþykkti í dag þátttöku í skuldaniðurfellingu Grikklands. Fjármálaráðherrar evruríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu sér saman um það fyrr í vikunni að lækka skuldir Grikkja um 40 milljarða evra ofan í aðrar aðgerðir. Grikkir fögnuðu niðurstöðunni í vikunni og sagði Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, samkomulagið gera löndum sínum kleift að koma efnahagslífinu á réttan kjöl.

Af 584 þingmönnum á þýska þinginu studdu 473 að bjarga Grikkjum með þessum hætti en 100 voru á móti. Ellefu þingmenn sátu hjá, samkvæmt fréttaritara breska dagblaðsins Guardian.