Þjóðverjar virðast bjartsýnni nú en síðustu mánuði á að efnahagslífið taki við sér eftir áramótin, samkvæmt nýjustu mælingum þýsku Zew-stofnunarinnar. Væntingavísitala stofnunarinnar mælist 6,9 stig og er það verulegur viðsnúningur frá -15,7 stigum í síðasta mánuði. Vísitalan hefur ekki verið hærri í sjö mánuði. Niðurstaðan er jafnframt þvert á væntingar enda bjuggust flestir við því í spá Bloomberg-fréttaveitunnar að vísitalan myndi rétt svo þokast upp á við þótt ekki kæmist hún upp fyrir núllið.

Vísitalan mælir væntingar stjórnenda, fjárfesta og markaðsaðila til efnahagslífsins næsta hálfa árið.