*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Innlent 29. október 2020 12:27

Þjóðverjar kaupa Skagann 3X

Þýska fyrirtækið Baader sem framleiðir matvinnsluvélar fyrir fisk og fugla kaupir meirihlutann í Skaganum 3X.

Ritstjórn
Ingólfur Árnason forstjóri Skagans 3X mun áfram gegna sínu starfi.
Haraldur Guðjónsson

Þýska matvinnsluframleiðslufyrirtækið Baader hefur keypt meirihlutann í íslenska sjávartæknifyrirtækinu Skaginn 3X.  Ingólfur Árnason mun áfram gegna starfi forstjóra Skagans 3X og mun njóta liðsinnis núverandi stjórnendateymis fyrirtækisins.

Að uppfylltum fyrirvörum samningsins um samþykki opinberra aðila, sem ráðgert að verði gert í ársbyrjun 2021, mun sölu- og markaðsstarf Skagans 3X verða samþætt víðfeðmu sölukerfi Baader. Í tilkynningu frá félaginu segir að þar til fyrirvörum samnings verður aflétt muni núverandi starfsemi fyrirtækjanna haldast óbreytt.

„Samstarf þetta er okkur mikið gleðiefni og ánægjulegt að geta í sameiningu boðið viðskiptavinum okkar heildstætt vöruframboð af framúrskarandi lausnum við vinnslu sjávarafurða“ segir Petra Baader, forstjóri Baader.

Baader samsteypan er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar í Lübeck í nyrsta sambandsríki Þýskalands, Schleswig-Holstein en það starfrækir þjónustustöðvar og dótturfyrirtæki í meira en 70 löndum og nær sölunet þess yfir 100 lönd í sex heimssálfum.

Félagið hefur verið að framleiða vélar til fiskvinnslu frá árinu 1919, og flæðilínur síðan 1969. Félagið sameinaðist danska fyrirtækinu Linco, sem hefur verið að framleiða vinnslulínur fyrir fuglakjöt frá árinu 1944, árið 2007. .

Á heimasíðu Baader á Íslandi, sem starfrækir verslun og renniverkstæði á Hafnarbraut í Kópavogi, segir að félagið skipuleggi, hanni og sjái um uppsetningu á búnaði og kerfum til vinnslu á fiski um borð sem og á landi. Meðal búnaðar sem félagið framleiðir eru roðflettivélar, hausarar, flökunarvélar, marningsvélar og rotarar.

„Með því að samtvinna áratuga sköpun, þekkingu og reynslu Baader við okkar sérþekkingu byggða á samstarfi og nálægð við öflugan sjávarútveg munum við efla þróun og nýsköpun til muna“ segir Ingólfur Árnason, forstjóri Skagans 3X.