Þjófar stálu tækjum úr Apple-verslun í París fyrir andvirði 170 milljóna íslenskra króna á Gamlárskvöld. Á meðan lögreglan stóð í ströngu við að hafa stjórn á veisluhöldum um nóttina rændu fjórir vopnaðir menn verslunina. Þeir sluppu með iPad-spjaldtölvur og iPhone síma ásamt öðrum tækjum.

Danmarks Radio hefur eftir Christophe Crepin, talsmanni frönsku lögreglunnar, að þjófarnir hafi vitað nákvæmlega hvað þeir ætluðu sér að taka. Þeir tóku vörurnar af lager en snertu ekki tæki sem voru í versluninni.