Hörður Gunnarsson hefur fylgt Iceland Travel í langan tíma. Hann hóf störf hjá Flugleiðum í ársbyrjun 1990, en var síðan framkvæmdastjóri hjá ÚrvalÚtsýn og síðar Ferðaskrifstofu Íslands í 15 ár. Nafni Ferðaskrifstofu Íslands var breytt árið 2000 þegar vörumerkið Iceland Travel var tekið upp, en fyrirtækið rekur í raun rætur sínar allt aftur til 1937 þegar Ferðaskrifstofa ríkisinsvar stofnuð.

Eftir að hafa stigið til hliðar í tvö ár kom Hörður aftur til starfa hjá Iceland Travel árið 2008 sem framkvæmdastjóri. Hann segir að fyrirtækið, sem er eitt af dótturfélögum Icelandair Group, sé sérhæft og leiðandi í móttöku erlendra ferðamanna á Íslandi.

„Kjarnastarfsemi Iceland Travel er að þjóna öðrum ferðaskipuleggjendum sem senda ferðalanga til Íslands. Fyrirtækið byggir viðskipti sín fyrst og fremst á „business-to-business“, og mjög margar þekktar erlendar ferðaskrifstofur eru að selja á sínum neytendamarkaði ferðir sem við skipuleggjum. Sem dæmi þá er áætlað á þessu ári að fjöldi erlendra ferðaskipuleggjenda sem við þjónum verði yfir 1.200 um víða veröld.“

Fjarlægðin hefur minnkað

Miklar og augljósar breytingar hafa orðið á íslenskri ferðaþjónustu síðustu árin í tengslum við fjölgun ferðamanna, og Hörður segir að áherslurnar í ferðaþjónustunni hafi breyst.

„Þegar ég byrjaði í þessu var áherslan oft á að selja ferðamönnum hringferðir um landið, og þá var gjarna gist í tjöldum. Það var hreinlega ekki til nema mjög takmarkað gistirými úti á landi, og þá var það helst Eddan sem menn þekkja enn í dag. Menn vita hvað hefur gerst síðan.“

Ítarlegt viðtal við Hörð er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .